Felix á ferð og flugi

Desember er jafnan mikill mánuður hjá íslenskum listamönnum og þannig er það líka hjá Felix.

Nýja platan, Borgin, hefur selst prýðilega og Felix hefur verið á faraldsfæti að syngja af plötunni, selja og árita diska. Nýtt myndband við lagið Augun þín eftir Eberg við texta Felix verður frumsýnt í vikunni. Ungur kvikmyndagerðarmaður, Jón Grétar Jónasson, er höfundur myndbandsins. Lagið fer í kjölfarið í spilun á útvarpsstöðvum.

Felix leikur tvær sýningar af Ævintýrinu um Augastein í Tjarnarbíói á móti Orra Hugin Ágústssyni. Leikritið er eftir Felix og sett upp af Leikhópnum Á senunni, nú 13. árið í röð. Þetta er dásamleg lítil sýning sem kemur fólki í jólaskap á aðventunni. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Tjarnarbíós 

Felix mun senda út Bergsson og Blöndal frá Amsterdam laugardaginn 6. desember. Margrét verður í Efstaleitinu. Þátturinn verður að vanda troðfullur af skemmtilegu efni og tónlist að hætti hússins. Þá eru Felix og Margrét farin að undirbúa þátt sem verður sendur út á Rás 2 á Aðfangadag. Sá þáttur hefur hlotið nafnið Bergsson og Blöndal – Ilmandi í eldhúsinu.

Æfingar fyrir nýtt leikrit Gunna og Felix, „Bakaraofninn – þar sem matargerð er lyst“ hafa staðið frá því í byrjun nóvember en verkið verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu í febrúar 2015. Miðasala er hafin hjá Gaflaraleikhúsinu. Með Gunna og Felix leika í verkinu þau Elva Ósk Ólafsdóttir og Ævar Benediktsson, Máni Svavarsson gerir tónlist og leikstjóri er Björk Jakobsdóttir.

10462692_10152683600783784_7888679708018515873_n

Felix syngur á Rósenberg með hljómsveit skipaðri Stefán Má Magnússyni, Karli Olgeirssyni, Bassa Ólafssyni og Friðriki Sturlusyni.

Felix verður fastagestur í Jólaþorpinu í Hafnarfirði fram að jólum. Hann verður þar 13. og 21. desember og nýtur lífsins með gestum og gangandi.