Borgin fær 4 stjörnur!

Fyrsti plötudómurinn um Borgina hefur birst á heimasíðu Tónskrattans.  Höfundur greinarinnar, Björn Jónsson, fer lofsamlegum orðum um plötuna sem kemur honum á óvart sem „stórskemmtileg poppplata“, hrósar lagasmíðum, textagerð, hljóðfæraleik, söng og heildamynd.  Björn segir m.a.

„..ég held að hann (Felix Bergsson) hafi aldrei sungið betur en hér og honum tekst að vinna mig á sitt band á þessari skemmtilegu plötu. Tilgerðarlaus, blátt áfram, einlægur og hlýr, það eru ekkert kostir sem prýða allt of marga söngvara eða bara fólk almennt.

Þetta er stórskemmtileg poppplata og kom mér verulega á óvart. Hvað tónlistina varðar er Felix náttúrulega gamall „eitís“ poppari sem gerði garðinn frægan með Greifunum og því ekki óeðlilegt að hann finni fjölina sína hér.

Promomynd vegna Borgarinnar Ljósm - Jorri

Promomynd vegna Borgarinnar
Ljósm – Jorri

Það er nefnilega leitað aftur á 9. áratuginn í efnistökum víða. Syntar og önnur hljómborð sem einkenndu þann áratug setja skemmtilegan svip á plötuna og tengja við fortíðina án þess að glata sjónar af nútímanum. Því fer víðs fjarri að platan sé eitthvað gamaldags eða hallærisleg.“

Um hljóðfæraleikinn segir Björn:

„Eitt sem fljótlega vakti athygli mína var skemmtilegur bassaleikur og bassasánd framarlega í mixinu og maður fékk netta Stranglers tilfinningu. Það mætti vera meira af þessu á plötum í dag. Stefán Már Magnússon sér um bassaleik ásamt gítarleik. Upptökustjóri og á hin ýmsu hljómborð leikur Jón Ólafsson og ferst honum það vel úr hendi eins og vænta mátti. Af Mánakyni er trommarinn Bassi Ólafsson og ekki klikkar hann. Hildur Vala syngur síðan með Felix í laginu Næturljóð sem er eftir Jón. Platan er vel spiluð og útsetningar skemmtilegar og það er einhver óræð gleði og jákvæðni yfir öllu.“

Björn hrósar svo lagasmíðum og segir:  „Felix fékk úr ógrynni laga að velja úr frá vinum og samstarfsmönnum og það er morgunljóst að vel tókst honum valið, en hann naut við það aðstoðar Jóns. Platan hljómar nefnilega eins og „best of “ í bestu merkingu þeirra orða…“

Lokaorðin eru svo mjög jákvæð.

„Textarnir hjá Felix finnst mér stórfínir, fullir af hlýjum tilfinningum margir, einlægir og vekja mann til umhugsunar um lífið og tilveruna. Þeir eiga ekki sístan þáttin í að hér tekst svona ljómandi vel til.  Þetta er ekki plata sem á að vera með „Best fyrir“ merkingu eins og margar, því hún þolir vel ítrekaðar spilanir og er klárlega með skemmtilegri poppplötum sem ég hef heyrt lengi og óska ég aðstandendum til hamingju með vel unnið verk.“

Platan fær svo 4 stjörnur af 5 mögulegum.  Dóminn allan má eins og áður sagði lesa á heimasíðu Tónskrattans.