Felix Bergsson sendir frá sér í dag nýja sólóplötu með frumsömdu efni. Platan hefur fengið nafnið Borgin. Útgáfudagur er 26. júní 2014.
Borgin hefur verið í vinnslu frá árinu 2012 en fyrri sólóplata Felix, Þögul nóttin, kom út árið 2011. Sú plata fékk mjög góðar viðtökur og dóma. Felix hóf strax aftur að sanka að sér tónlist frá vinum og samstarfsfélögum og síðan að semja texta. Jón Ólafsson var aftur með Felix við vinnslu plötunnar, valdi með honum lögin, útsetti þau, spilaði og tók upp í stúdíó Eyranu. Nú þegar hafa lögin Eydís (Karl Olgeirsson/FB) og Næturljóð (Jón Ólafsson/FB) farið í spilun á útvarpsstöðvum. Næsta lag af plötunni sem fer í spilun er Horfði á eftir þér eftir Eberg og Felix.
Titillinn Borgin vísar í nútímann, lífið í borgum heimsins og aðdáun Felix á þeirri gerjun, sköpun og tilfinningaskala sem finna má í borgum. Platan innheldur 10 poppflugur. Lagahöfundar eru Jón Ólafsson, Ottó Tynes, Eberg, Karl Olgeirsson, Sigurður Örn Jónsson og Dr. Gunni en Felix semur flesta texta utan tvo sem eru eftir Dr. Gunna og Bjartmar Guðlaugsson. Textarnir eru margir persónulegir og vísa í lífsreynslu og lífssýn höfundar.
Jón Ólafsson stjórnar upptökum, spilar á öll hljómborð og píanó, raddar og forritar trommuheila. Stefán Már Magnússon spilar á gítar og bassa, Bassi Ólafsson trommar og Hildur Vala Einarsdóttir syngur með í Næturljóðinu. Addi 800 mixaði plötuna en mastering var unnin af Mandy Parnell hjá Black Saloon Studios. Hönnun var í höndum Jóns Þorgeirs Kristjánssonar (Jorra). Umslagið er prentað hjá Odda og platan framleidd af Myndbandavinnslunni. Útgefandi Borgarinnar er Jafninginn ehf en Kongó sér um dreifingu www.kongoshop.com
Platan fæst sem geisladiskur en hún er einnig öll á tonlist.is, I-tunes og Spotify.