kvetch vikunnar     leikritið     leikarar     berkoff     tenglar     sýningar & miðasala

Næstu sýningar...



Miðasala fer fram í Borgarleikhúsinu.
sími 568 8000

senan@senan.is

Ragnheiður Skúladóttir, prófessor við LHÍ

KVETCH Berkoffs

Þrátt fyrir góðan ásetning tókst mér ekki að sjá allar sýningar í íslensku atvinnuleikhúsi þetta árið. Fyrir stuttu sá ég leiksýningu sem mig langar sérstaklega að minnast á; ekki síst vegna þess að hún er ennþá á fjölunum (verður sýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins eftir áramót). Þetta er KVETCH eftir Steven Berkoff sem leikhópurinn Á senunni frumsýndi í Vesturporti í haust.

Þetta er afar stílhrein sýning, hvað varðar leik og í raun alla umgjörð; frábærir búningar og leikmynd. Leiklausnir eru óvæntar og ganga alltaf upp, miðað við þau miklu átök sem eru í sálarlífi persónanna tekst leikstjóranum, Stefáni Jónssyni, að búa til mjög gott flæði í sýningunni. Þetta verkefni sannar svo ekki verður um villst hversu frambærilegur leikstjóri Stefán er. Leikararnir standa sig mjög vel: Það ber mest á þeim Steini Ármanni Magnússyni og Ólafi Darra Ólafssyni sem feta skemmtilega einstigið milli þess að vera fullkomlega átakanlegar persónur og þess að vekja samúð manns. Edda Heiðrún Backman toppar svo allt saman með hnitmiðuðum og stórkostlegum gamanleik. Tímasetningar hennar eru snjallar; hún byggir upp spennuþrungið andrúmsloft í kringum persónu eiginkonunnar og rýfur það síðan á hárréttu augnabliki. Þessi kvenpersóna Eddu er gjörsamlega óútreiknanleg.

Ekki ætla ég að fara að ýta undir aðstöðuleysi íslenskrar leiklistar en það verður að segjast eins og er að það er eitthvað skemmtilegt við að sjá sýningu í húsnæði sem hefur upp á mjög takmarkaðan tækjakost að bjóða og mikla nálægð við áhorfendur. Ég vonast til að Vesturport geti haldið áfram að hýsa leiksýningar þar sem atvinnumennska, kraftur og sköpun fá að njóta sín.

(Lesbók Morgunblaðsins, 28. desember, 2002)