Vefur Berkoffs...
Við mælum líka með viðtölum við Berkoff og
hugleiðingum en það efni má finna á tenglasíðunni okkar.
|
Steven Berkoff
Höfundurinn Steven Berkoff er feikilega
vel kynntur í leikhúsheiminum, jafnt sem leikari, leikstjóri, leikritaskáld og
rithöfundur.Hér á landi þekkjum við
hann helst sem vonda kallinn úr kvikmyndum eins og Rambo, Beverly Hills Cop,
Octopussy og War and Remembrance.
Í leikhúsinu er hann líka uppreisnarseggur og hefur vakið athygli
fyrir að fara algjörlega eigin leiðir.
Berkoff er af mörgum talinn einn besti og frumlegasti
leikhúslistamaðurinn í heiminum.
Steven Berkoff hlaut sína leikhúsmenntun í
London og París, en þar nam hann hjá Jaques Le Coq. Hann stofnaði sinn eigin leikhóp, the London
Theatre Group árið 1968 og fór strax að vekja verulega athygli. Fyrsta sýning þess hóps var
In the Penal Colony en það var
útfærsla Berkoff á smásögu eftir Kafka.
Berkoff hefur einmitt öðlast frægð fyrir sínar “útgáfur” á klassískum
verkum eins og Réttarhöldunum og Metamorphosis eftir Kafka,
gríska harmleiknum Agamemnon og The Fall of the House of Usher
eftir Edgar Allen Poe. Þá hefur
hann náð stórkostlegum árangri í nýstárlegum uppfærslum á verkum Shakespeares.
Meðal leikverka Steven Berkoff eru West,
Decadence (síðar kvikmynd með Joan Collins), Greek, Kvetch,
Acapulco, Harry´s Christmas, Lunch, Sink the Belgrano, Massage, Sturm und
Drang, Brigton Beach Scumbags, Messiah og svo hans þekktasta verk, East.
Berkoff hefur ferðast um heiminn með
leikverk sín og er fastagestur á leiklistarhátíðum, sérstaklega í Edinborg þar
sem hann er orðinn eins og stofnun.
Vert er að benda á grein Bergljótar Arnalds, en hún var aðstoðarmaður
Berkoff í Edinborg árið 1994. Hann er “enfant terrible” í leikhúsheiminum
og hikar ekkert við að segja skoðanir sínar á mönnum og málefnum.
Þannig hatast hann við allt West End og
Broadway leikhús, sem hann telur andvana fætt og hann lætur ótrúlega hluti út úr
sér um leikhúsmenn eins og Peter Hall.
Frægt var svo þegar hann gekk einn á móti verkfalli leikara í Bandaríkjunum
og lék í MacDonald´s auglýsingu. Það þótti
ekki sæma baráttumanninum og anti-kapitalistanum Berkoff.
En svona er hann, kemur sífellt á óvart og
fer algjörlega sínar eigin leiðir.
Berkoff hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum
eins og áður sagði og eru þær jafn misjafnar að gæðum og þær eru margar.
Meðal þeirra mynda sem ekki höfðu verið
nefndar eru A Clockwork Orange, Barry Lyndon, Under the Cherry Moon,
Absolute Beginners, Prisoner of Rio, The Krays og svo auðvitað stórmyndin Another
9½ Weeks!
Berkoff hefur líka verið feikilega afkastamikill
rithöfundur og gefið út bækur um leiklist, dagbækur einstakra verkefna,
smásagnasöfn, leikrit, ferðabækur og ljóð.
Ævisaga hans heitir Free Association og var gefin út af Faber
& Faber árið 1996. Við mælum með smásagnasafninu
Graft: Tales of An Actor sem kom út árið 1998. Frábærlega vel skrifuð innsýn í líf leikarans.
Í heildina má segja að lífsstarf þessa mikla
listamanns sé með ólíkindum og í raun ótrúlegt að verk hans skuli ekki hafa
ratað inn á íslenskt leiksvið fyrr en nú.
|