Næstu sýningar...
Miðasala fer fram í Borgarleikhúsinu.
sími 568 8000
senan@senan.is
|
Múrinn 21.1.2003
Kraftmikið Kvetch
Kvetch er orð úr mállýsku bandarískra gyðinga í New York, og merkir kvíði
eða angist. Og með sanni má segja að angist sé leiðarminni í leikritinu
Kvetch eftir Steven Berkoff sem leikhópurinn Á senunni sýnir um þessar
mundir í Borgarleikhúsinu. Við sögu koma fimm manneskjur sem hver og ein er
full angistar yfir stöðu sinni í heiminum.
Leikritið gerist í Bandaríkjunum og segir frá hjónunum Frank (Steinn Ármann
Magnússon) og Donnu (Edda Heiðrún Backman) en þau hanga saman af gömlum
vana. Kvöld eitt býður Frank vinnufélaga sínum Hal (Ólafur Darri Ólafsson) í
kvöldmat, á sama degi og móðir Donnu (Margrét Ákadóttir) er í mat. Við sögu
kemur einnig fataframleiðandinn George (Felix Bergsson) sem Frank reynir að
selja efni.
Kvetch er snoturlega samið leikrit sem er byggt upp á hefðbundinn hátt nema
persónur fara ekki bara með línurnar sínar heldur einnig hugsanir sem enginn
annar í verkinu heyrir (og frjósa þá hinar persónurnar á meðan). En
persónurnar tala einmitt iðulega þvert um hug sér og því myndast hinar
spaugilegustu senur þegar persónan segir upphátt já en áhorfendur fá að vita
að inni í sér hugsar hún nei, nei!
Viðfangsefnið er hlutskipti mannskepnunnar í firrtum nútímaheimi eins og í
öllum almennilegum leikritum. Frank og Donna eru bæði ósátt við stöðu sína í
lífinu en hvorugt ræður við að gera neitt í neinu. Í staðinn tala þau um
hversdagsleg viðfangsefni en undir niðri krauma sterkar tilfinningar. Sama
má segja um Hal sem er nýfráskilinn en þykist vera hamingjusamur
einhleypingur á nýjan leik. Og meira að segja fataframleiðandinn George sem
virðist hafa öll tromp á hendi hefur sinn djöful að draga. Móðir Donnu er
eins og stöðug áminning um það sem bíður okkar allra; ropandi og prumpandi
gömul kona sem hefur ekki lengur stjórn á líkamsstarfseminni og er þar með
komin út á jaðar samfélagsins; er orðin smábarn að nýju og ófær um þátttöku
í lífinu.
Kvetch er stutt en mjög dýnamísk sýning. Í heildina tekið tekst
leikstjóranum, Stefáni Jónssyni, að feta einstigið á milli hláturs og gráts;
fáránleika og grótesku, þannig að sýningin verður mjög sterk. Leikritið
sjálft er vel samið og allar persónur nema helst mamman sem er fremur
táknmynd en persóna öðlast nokkra dýpt. Þýðandanum, Ólafi Haraldssyni,
tekst líka vel upp. Nöfn og þess háttar er ekki þýtt sem ítrekar framandi
sögusvið en textinn flæðir hins vegar í eðlilegu íslensku talmáli.
Leikararnir njóta sín mjög vel. Steinn Ármann Magnússon og Edda Heiðrún
Backman fara með aðalhlutverkin og eru hvort öðru betra. Bæði ná því að vera
hlægileg og brjóstumkennanleg í senn og samspil þeirra er kraftmikið. Það er
mjög gaman að sjá þau brillera svona og gaman að sjá að fleiri geta leikið
aðalhlutverk en Hilmir Snær.
Ólafur Darri er mjög sannfærandi sem Hal og upphafssenan sem gerist í
matarboðinu hjá Frank og Donnu er gríðarlega orkumikil og mögnuð sena sem
byggist aðallega upp í kringum samspil þeirra þriggja. Felix stendur sig
ágætlega sem George en sýnir þó sýnu minnst tilþrif af leikurunum enda
minna hlutverk og sú persóna óljósari en hinar þrjár. Að lokum má nefna hina
sérkennilegu táknmynd ellinnar sem Margrét Ákadóttir túlkar mjög vel en sú
persóna er annars eðlis en hinar.
Múrinn mælir óhikað með Kvetch í Borgarleikhúsinu. Rétt er að taka fram að
sýningin er unnin af sjálfstæða leikhópnum Á senunni og var upphaflega sett
upp í Vesturporti. Þetta er líklega með betri sýningum leikársins og bendir
til að gróskan sé ekki síðri og jafnvel meiri í grasrótinni en í
stofnanaleikhúsunum sem bæði tvö sýna nú kassastykki fyrir fullu húsi. Lifi
grasrótin og allir á Kvetch!
kj
|