Næstu sýningar...
Miðasala fer fram í Borgarleikhúsinu.
sími 568 8000
senan@senan.is
|
Grátbroslegar hvunndagshetjur
Hvað gerir góð húsmóðir þegar eiginmaðurinn kemur óvænt heim með gest í kvöldmatinn (sem er bæði mislukkaður og helst til naumt skammtaður)? Jú, brosir blítt og tekur gestinum fagnandi en bölvar eiginmanninum í hljóði. Hann er reyndar engu lukkulegri yfir þessari skyndilegu gestrisni sinni og bölvar jafnt eiginkonunni, tengdó gömlu sem gefur frá sér óviðurkvæmileg búkhljóð og náunganum sem hann álpaðist til að draga með heim. Þegar við bætist að gesturinn er einstaklega taugaóstyrkur og óöruggur með sjálfan sig þarf engan að undra að samkvæmið verði fremur misheppnað.
Þessi pínlega samkunda er upphafið að gamanleiknum Kvetch eftir Steven Berkoff sem var frumsýndur í Vesturportinu í gærkvöldi. Það sem gerir leikritið jafn óumræðilega fyndið og raun ber vitni er sú staðreynd að áhorfendur fá ekki aðeins að fylgjast með samræðum persóna og látbragði heldur fá þeir að horfa inn í huga þeirra í bókstaflegri merkingu. Hugsanirnar eru nefnilega orðaðar upphátt og eru oftar en ekki í hróplegu ósamræmi við það sem persónurnar annars segja og gera. Söguþráðurinn jaðrar við að vera einfaldur en kemur líka skemmtilega á óvart og verður því ekki rakinn frekar. Allar aðstæður virka ótrúlega kunnuglegar og sama má segja um söguhetjurnar sem gætu verið Jón og Gunna í næsta húsi og því auðvelt að finna til samkenndar með þeim. Það er sérlega góð stígandi í verkinu og þótt gamanið sé vissulega í fyrirrúmi er það blandið sársauka og meðaumkvun. Til þess vísar líka titillinn því „kvetch“ þýðir að sögn angist eða kvíði.
Leikrit eftir Steven Berkoff hefur ekki áður ratað á íslenskt svið en Kvetch gefur tilefni til að óska eftir nánari kynnum af verkum hans í framtíðinni. Vitanlega er gott leikrit engin trygging fyrir góðri uppfærslu en sýningin sem boðið er upp á í Vesturportinu sameinar þetta tvennt. Þar leggst allt á eitt; útsjónarsöm en táknræn leikmynd, búningar og gervi sem styrktu og skerptu persónusköpun, frábær lýsing og hljóðmynd sem er snilldarlega samtvinnuð framvindunni.
Að vanda mæðir mest á leikurunum og þar er valinn maður í hverju rúmi. Það kemur líklega fæstum á óvart að Steinn Ármann Magnússon standi sig vel í þessu stykki því hann hefur fyrir löngu sannað að hann er afburða gamanleikari. Edda Heiðrún Backman er það líka en hefur aðallega verið sett í dramatískar rullur í seinni tíð. Hér fær hún kærkomið tækifæri til að sýna að hún hefur kómíkina ekki síður á valdi sínu en slær líka á alvarlega strengi í túlkun sinni. Ólafur Darri Ólafsson skapar persónu sem er bæði hlægileg og aumkunarverð og Margrét Ákadóttir fór létt með að draga upp skýra mynd af tengdó gömlu. Ég minnist þess ekki að hafa séð Felix Bergsson í jafn hreinræktuðu gamanhlutverki en hann nær góðum tökum á sínum karakter sem þrátt fyrir spjátrungsháttinn er jafn angistarfullur og allir hinir.
Stefán Jónsson er vanari því að standa sjálfur á sviðinu en sannar hér að hann á ekki síður erindi sem leikstjóri. Til að sýning sem þessi gangi upp þurfa allar innkomur að vera hárnákvæmt tímasettar og allt veltur á fullkomnu samspili leikenda. Hlutverk leikstjórans er því ekki ólíkt hlutverki hljómsveitarstjóra stórrar hljómsveitar og greinilegt að Stefán hefur góð tök á sínum „hljóðfæraleikurum“.
Kvetch er bráðskemmtileg sýning sem á vonandi eftir að ylja mörgum í skammdeginu.
Halldóra Friðjónsdóttir
Leikhópurinn Á senunni sýnir í Vesturporti: Kvetch eftir Steven Berkoff í þýðingu Ólafs Haraldssonar. Hljóðmynd: Jón Hallur Stefánsson. Lýsing: Sigurður Kaiser. Leikgervi og búningar: Ásta Hafþórsdóttir. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson. Leikstjóri: Stefán Jónsson.
|