Næstu sýningar...
Miðasala fer fram í Borgarleikhúsinu.
sími 568 8000
senan@senan.is
|
Fréttatilkynning
Leiksýning ársins, Kvetch, snýr aftur í Borgarleikhúsið!
Leikhópurinn Á senunni í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur hefur ákveðið að snúa aftur með leiksýningu ársins, Kvetch eftir Steven Berkoff. Endurfrumsýning verður þann 15. október á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Óljóst var um framhald á sýningum vegna anna leikara en ótrúlegur áhugi á sýningunni í haust varð til þess að ákveðið var að koma sýningunni aftur af stað. Tveir nýir leikarar koma inn í sýninguna. Katla Margrét Þorgeirsdóttir tekur við hlutverki Donnu og Halldór Gylfason tekur tímabundið við hlutverki Hal.
Kvetch var ótvíræður sigurvegari íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar og hlutu aðstandendur sýningarinnar 4 verðlaun. Mikið hefur verið rætt og ritað um verkið sem er nýstárlegt. Það er grátlega fyndið og skerandi sorglegt og tekst að koma áhorfendum algjörlega í opna skjöldu.
Miðasala er hafin í Borgarleikhúsinu, sími 568 8000. Þar er hægt að fá nánari upplýsingar um sýningardaga og tilboð til hópa, en einnig er mögulegt að fá upplýsingar á heimasíðu leikhópsins, www.senan.is eða hjá Borgarleikhúsinu á www.borgarleikhus.is
Kær kveðja,
Leikhópurinn Á senunni og Leikfélag Reykjavíkur
Hvað hafa menn sagt um Kvetch?
Uppsetning Stefáns Jónssonar á þessum gráglettna gamanleik hjá Á senunni var einstaklega vel heppnuð og þar lagðist allt á eitt; útsjónarsöm en táknræn leikmynd, búningar og gervi sem styrktu og skerptu persónusköpun, frábær lýsing og hljóðmynd sem er snilldarlega samtvinnuð framvindunni en umfram allt ótrúlegur kraftur sem var beislaður í þágu sýningarinnar. Frammistaða leikara er eins og best verður á kosið...
(umsögn dómnefndar v. Menningarverðlauna DV)
Kvetch er stutt en mjög dýnamísk sýning. Í heildina tekið tekst leikstjóranum, Stefáni Jónssyni, að feta einstigið á milli hláturs og gráts; fáránleika og grótesku, þannig að sýningin verður mjög sterk.
Leikararnir njóta sín mjög vel. Steinn Ármann Magnússon og Edda Heiðrún Backman fara með aðalhlutverkin og eru hvort öðru betra. Bæði ná því að vera hlægileg og brjóstumkennanleg í senn og samspil þeirra er kraftmikið. Það er mjög gaman að sjá þau brillera svona...
(Múrinn, Katrín Jakobsdóttir)
Veisla!
... ef ykkur langar til að eiga stund þar sem þið getið velst um af hlátri, ekki missa af þesari leiksýningu... (Soffía Auður, Mbl.)
Þetta er afar stílhrein sýning, hvað varðar leik og í raun alla umgjörð; frábærir búningar og leikmynd. Leiklausnir eru óvæntar og ganga alltaf upp, miðað við þau miklu átök sem eru í sálarlífi persónanna tekst leikstjóranum, Stefáni Jónssyni, að búa til mjög gott flæði í sýningunni. Þetta verkefni sannar svo ekki verður um villst hversu frambærilegur leikstjóri Stefán (Jónsson) er. Leikararnir standa sig mjög vel: Það ber mest á þeim Steini Ármanni Magnússyni og Ólafi Darra Ólafssyni sem feta skemmtilega einstigið milli þess að vera fullkomlega átakanlegar persónur og þess að vekja samúð manns. Edda Heiðrún Backman toppar svo allt saman með hnitmiðuðum og stórkostlegum gamanleik.
(Ragnheiður Skúladóttir, prófessor við LHÍ)
|