Söngleikurinn Kabarett er hugarsmíð þeirra Joe Masteroff, Fred Ebb og John Kander. Upprunalegur grunnur verksins eru þó Berlínarsögur Christopher Isherwood sem komu út árið 1935 en nánari útfærslu mátti síðar finna í leikverkinu og síðar kvikmyndinni I am a Camera eftir John Van Druten. En sá sem hóf þetta allt var Christopher Isherwood.
Christopher Isherwood fæddist á Englandi í ágúst 1904 og lést í Bandaríkjunum árið 1986. Faðir Christophers var hermaður sem dó á vígvelli fyrri heimstyrjaldarinnar og snemma var Christopher sendur í heimavistarskóla. Hann lærði í Cambridge og á árunum 1928-29 lærði hann læknisfræði í Kings College í London. Þar gerði hann sér grein fyrir samkynhneigð sinni, sneri sér í æ meira mæli að ritlistinni og vingaðist meðal annars við annað af stærri skáldum Breta, WH Auden. Ástarsamband þeirra varð stutt en vinskapurinn stóð meðan báðir lifðu. Það má segja að þeir hafi verið úr hópi fjölmargra samkynhneigðra höfunda sem voru að skrifa á 20. öldinni en gátu ekki komið opinberlega fram með kynhneigð sína fyrr en líða tók verulega á öldina. Meðal þessara skálda eru t.d. Tennessee Williams, Edward Albee,Terence Rattigan, Noel Coward og Gore Vidal. Þeir Isherwood og Auden ferðuðust saman um Evrópu og sögðu fréttir af ástandinu á vígvöllum Síðari heimstyrjaldarinnar auk þess sem þeir ferðuðust til Kína. Isherwood dvaldi frá 1930-33 í Berlín.Bjó við Nollendorplatz. Þar urðu skáldsaga hans Mr. Norris Changes Trains (eða The Last of Mr. Norris) og smásagnasafnið Berlin Stories til. Þær komu út árið 1935 og 1939. Sögurnar leiftra af húmor og það er greinilegt að höfundurinn hefur
|
sérstakt næmi til að taka eftir lífinu og tilverunni í kringum sig. Það er vitað að Isherwood átti elskhuga að nafni Heinz í Berlín og má lesa um hann undir rós í einni af Berlínarsögunum. Þá má einnig finna hliðstæður margra annarra karaktera í sögum hans, t.d. Sally Bowles, Fraulein Schroeder og Mr. Norris. Frábærlega skemmtileg lesning.
Berlínarsögur Isherwood vöktu athygli en hann náði ekki í raun heimsfrægð fyrr en söngleikurinn Kabarett kom fram í kringum 1970. Kvikmyndin var gerð árið 1972. Hún er enn klassískt verk. Christopher Isherwood flutti til Bandaríkjanna um 1940, gerðist bandarískur ríkisborgari og settist að í Los Angeles, þar sem hann skrifaði m.a. kvikmyndahandrit. Hann bjó á Santa Monica til dauðadags og frá 1953 með miklu yngri lífsförunauti sínum, Don Bachardy. Þeir urðu áberandi í réttindabaráttu samkynhneigðra og fyrirmynd margra ungra homma, enda glæsilegt par sem lifði lífinu á sínum forsendum og naut velgengni. Eftir Christopher Isherwood liggja mörg verk. Þeirra frægust fyrir utan Berlínarsögurnar eru Prater Violel, A Single Man, Lions and Shadows og Christopher and His Kind. Þá hafa dagbækur Isherwood verið gefnar út. Mér vitanlega hafa verk Christopher Isherwood ekki verið þýdd á íslensku. |