Fréttir
KABARETT – DRAUMURINN VERÐUR AÐ VERULEIKA!!
Mánudagur, 31.janúar 2005
Leikhópurinn Á senunni hefur lengi stefnt að því að setja upp söngleikinn Kabarett (Cabaret) eftir þá Masteroff, Ebb og Kander. Nú er komið að því að sá draumur verði að veruleika því undirbúningur er í fullum gangi og frumsýning áætluð í ágúst 2005.
Söngleikurinn Kabarett hefur verið draumaverkefni Kalla, Felix og Kollu í nokkur ár og má segja að uppsetningin á Paris at night hafi verið einskonar stílæfing að þessari uppsetningu nú. Flestir þekkja kvikmyndina Cabaret(1972) eftir Bob Fosse sem skartaði þeim Lizu Minelli, Michael York og Joel Grey í aðalhlutverkum en forsagan er miklu lengri. Upprunalega gerði John Van Druten leikrit eftir Berlínarsögum Cristopher Isherwood, en þær komu fyrst út á árunum 1934-1939. Leikverkið var frumsýnt 1952, og hét I´m a Camera sem er tilvísun í eina af fyrstu setningum bókarinnar. Verkið var kvikmyndað árið 1955 með Julie Harris í hlutverki Sally Bowles. Í kjölfarið (1966) kom söngleikur frá þeim félögum Masteroff, Ebb og Kander og eftir að hann hafði slegið rækilga í gegn varð kvikmyndin til. Söngleikurinn hefur nokkrum sinnum verið settur á svið á Íslandi en á undanförnum árum hefur verkið gengið í endurnýjun lífdaga, enda á efnið fullt erindi við okkur í dag. Þannig varð sýning leikstjórans Sam Mendes algjör smellur í London og New York og lauk sýningum á Broadway í janúar síðastliðnum. Það þarf ekki að fjölyrða um gæði tónlistarinnar en það er ekki hvað síst sagan sem gerir Kabarett að klassísku verki Sögusviðið er Berlín á uppgangstímum nasismans. Öfgarnar eru algerar hvort sem litið er til hömluleysis kabarettsins eða geðveiki nasismans. Útkoman er verk sem hefur haldið áfram að ögra, snerta og heilla áhorfendur í áratugi.
Það er óhætt að segja að vinna við verkefnið gangi vel, fjármögnun er nokkurn veginn trygg, listamenn eru að hrúgast að verkefninu og samningur um leikhús liggur á borðinu. Samstarfsaðilar verkefnisins verða kynntir þegar skrifað verður undir samninga. Kolbrún Halldórsdóttir mun leikstýra Kabarett, tónlistarstjóri verður Karl Olgeirsson og Felix Bergsson verður framkvæmdastjóri, auk þess að leika eitt af burðarhlutverkum. Aðrir listamenn sem hafa verið ráðnir til verksins eru Axel Hallkell leikmyndahönnuður, Margrét Sara Guðjónsdóttir, danshöfundur, Jóhann Bjarni Pálmason ljósameistari og Veturliði Guðnason þýðandi. Í augnablikinu er verið að ganga frá því hvar verkið verður sýnt. Um þá staðsetningu verður tilkynnt fljótlega. Á sama tíma verður leikhópurinn kynntur til sögunnar. Áheyrnarprufur fóru fram í lok desember og er óhætt að segja að það sé að takast að fá úrvalslið til sýningarinnar. Á sviðinu verða amk 20 atvinnumenn, leikarar, söngavarar, dansarar og hljóðfæraleikarar.
Við höldum áfram að koma fréttum hingað inn á heimasíðuna. Fylgist með frá byrjun!
Stórfrétt úr leikhúsinu!
Mánudagur, 31.janúar 2005
Hilmir Snær kemur inn í SVIK eftir Harold Pinter í Borgarleikhúsinu!
Hilmir Snær Guðnason mun í febrúar koma inn í leiksýninguna SVIK (Betrayal) eftir Harold Pinter. Hilmir mun leika Jerry en það hlutverk var í höndum Felix Bergssonar en hann er á leið af landi brott. Felix mun leika sína síðustu sýningu föstudaginn 4. febrúar og Hilmir tekur við sunnudaginn 13. febrúar. Aðrir leikarar í sýningunni eru eins og áður Ingvar E Sigurðsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir og um tónlistina sér Gunnar Hrafnsson. Leikstjórn er í höndum Eddu Heiðrúnar Backman.
Leikhópurinn Á senunni með annan fótinn í London ....
Þriðjudagur, 25.janúar 2005
Felix Bergsson er staddur í London um þessar mundir við skriftir en nýtur menningarlífs borgarinnar og deilir með gestum senan.is upplifunum sínum og vangaveltum.
Smelltu hér til að lesa fyrsta pistillinn frá London
Ævintýraleikur Augasteins í miðborginni
Föstudagur, 3.desember 2004
Vinningshafar hér!
Paris at night - diskurinn kemur í verslanir í dag!
Föstudagur, 12.nóvember 2004
Leikhópurinn Á senunni hefur vakið athygli og fengið verðlaun fyrir frábærar leiksýningar. Nú er fyrsta hljómplata hópsins er að koma í verslanir. Nánar...
Ævintýrið um Augastein í London fyrir jólin!
Þriðjudagur, 14.desember 2004
Leikhópurinn Á senunni finnur sér tíma í jólaamstrinu til að skutlast til London og sýna hina margrómuðu barnasýningu Ævintýrið um Augastein.
Leikið er í Drill Hall leikhúsinu í miðborg London dagana 20. – 23. desember. Á ensku heitir verkið Greela and the 13 Yule Lads.
(Tónlistarbrot á ensku!) (Myndbrot úr ensku sýningunni!)
Paris at night - Tónleikar í Bókabúð Máls og menningar á Laugarvegi
Fimmtudagur, 25.nóvember 2004
Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Felix Bergsson ásamt hljómsveit syngja nokkur lög af geisladisknum Paris at night í bókabúð Máls og menningar Laugarvegi 18 föstudaginn 26. nóvember kl. 17.30.
Sala hafin á Ævintýrið um Augastein
(Tónlistarbrot á ensku!) (Myndbrot úr
ensku sýningunni!)
Mánudagur, 1.nóvember 2004
Leikhópurinn Á senunni kemur aftur með hina margrómuðu fjölskyldusýningu Ævintýrið um Augastein í Tjarnarbíó. Sýningar hefjast að nýju þann 4. desember kl. 14.00 og svo verður sýnt alveg út desember. Sýningarplanið er hér!
Nánar um Ævintýrið um Augastein
-Svik koma til Reykjavíkur!
Fimmtudagur, 28.október 2004
Sýningin á Svikum eftir Harold Pinter í leikstjórn Eddu Heiðrúnar Backman fer á svið í Borgarleikhúsinu 12. nóvember. Leikarar eru eins og áður Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Ingvar E Sigurðsson og Felix Bergsson. Verkefnið er samstarfsverkefni leikhópsins Á senunni, Sagnar ehf, Leikfélags Reykjavíkur og Leikfélags Akureyrar. Sýningin hefur fengið frábæra aðsókn á Akureyri en ekki er unnt að halda áfram með hana þar. Dómur Soffíu Auðar í Morgunblaðinu var lofsamlegur. Hún segir m.a.:
“skemmst er frá því að segja að uppsetning Eddu Heiðrúnar Backman, sem hér þreytir frumraun sína í leikstjórn, er glæsilegur sigur fyrir hana og þá listamenn sem með henni vinna.”
“....víst er að ég ætla að sjá sýninguna aftur. Það er ekki oft sem manni gefst færi á að njóta ósvikinnar listrænnar upplifunar af þessum gæðaflokki. Missið ekki af þessari glæsilegu sýningu.” (Sjá dóminn í heild – ..)
Sala á sýningar í Borgarleikhúsinu er hafin á borgarleikhus.is eða í síma 568 8000
Sýningardagar í Reykjavík
Nánar um SVIK
|