|
Ævintýrið um Augastein
barnaleikrit eftir Felix Bergsson
Ævintýrið um Augastein – sýningar á Akureyri og í Reykjavík í desember 2005 Leikhópurinn Á senunni tók þátt í Barnaleikhúsmessu Fræðlusmiðstöðvar, Sjálfstæðu leikhúsanna og Assitej - Samtaka um barnaleikhús á dögunum. Í kjölfarið býður leikhópurinn skólum og hópum upp á sýningar á barnaleikritinu Ævintýrið um Augastein í Tjarnarbíói og í Samkomuhúsinu á Akureyri í desember. Nú þegar er byrjað að bóka sýningar. Nánari upplýsingar veitir Felix Bergsson í síma 861 9535. Einnig má skrifa okkur á senan(hjá)senan.is
Ævintýrið um Augastein er klassísk jólasaga, með óvæntri fléttu. Steinn gamli, í minjagripabúðinni, er í miðju kafi að undirbúa jólin þegar krummi vinur hans kemur í heimsókn. Í kjölfarið fer gamli maðurinn að segja krumma uppáhaldsjólasöguna þeirra, söguna af litla drengnum sem lenti fyrir tilviljun í höndum jólasveinanna rétt fyrir jól. Á þeim tíma voru jólasveinarnir engir auðfúsugestir, enda þjófóttir og stríðnir. Þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við þessa krakkarófu, sem horfir á þá stórum, saklausum augum. Steinn syngur fyrir krumma, bregður sér í hlutverk sveinanna og allt í einu fara skrýtnir skuggar á sveim. Það skyldi þó aldrei vera að Grýla sé komin á stjá?
Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í Drill Hall leikhúsinu í London í desember 2002 og á Íslandi árið 2003. Bók með ævintýrinu kom út fyrir jólin 2003. Höfundur og leikari er Felix Bergsson, Helga Arnalds gerði brúður og leikmynd, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson sá um tónlistina sem er sungin af Háskólakórnum og Vox Academica undir stjórn Hákons Leifssonar, hljóðmyndin er verk Sveins Kjartanssonar og Jóhann Bjarni Pálmason vann lýsingu. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir. Sýningin er ætluð börnum á aldrinum 2ja – 10 ára. Hún er tæpur klukkutími í flutningi.
Hljóðbrot úr
sýningunni á ensku í Windows Media skrá!
Leikhópurinn Á senunni var stofnaður af þeim Felix Bergssyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur árið 1998. Fyrsta verkefni hópsins var Hinn fullkomni jafningi, en það var frumsýnt í Reykjavík í janúar 1999. Leikhópurinn hefur frá upphafi markað sér sérstöðu fyrir nýstárlegar leiksýningar og áherslu á alþjóðlegt samstarf.
Listamennirnir sem koma að Ævintýrinu um Augstein eru að góðu kunnir. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir. Helga Arnalds gerði brúðurnar sem leika stórt hlutverk í sýningunni auk þess sem hún hannaði leikmyndina, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson sér um tónlistarstjórn og útsetningar, Jóhann Bjarni Pálmason hannar lýsingu og aðstoð á sviði er í höndum Unnars Geirs Unnarssonar. Felix Bergsson er höfundur leikritsins auk þess að leika öll hlutverkin.
Hljóðmyndin er sungin af Vox academica undir stjórn Hákons
Leifssonar. Háskólakórinn býr til önnur hljóð í hljóðmynd. Upptökum stjórnaði Sveinn Kjartansson. Sýningin er styrkt af Flugleiðum/Icelandair, Samgöngu og utanríkisráðuneytum, Borgarleikhúsinu og Sjóði Egils Skallagrímssonar í London.
Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson, með myndum eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur kom út í bók 2003. Útgefandi er Mál og menning.
Á frumsýningu: Bergur Felixson,
Felix Bergsson og Ingibjörg S. Guðmundsdóttir
Lofsamlegur dómur í Morgunblaðinu 10.11.2003 eftir Svein Haraldsson, um Augastein!
“Þetta leikrit Felix Bergssonar er þeim kostum búið að hér er fullt af
dramantískri spennu..”
“Útsetning og hljóðmyndin öll er einfaldlega stórkostleg...”
“Helga Arnalds á heiðurnn af leikmynd og brúðum og allt er það einstaklega
stílhrein, góð og frumleg vinna.”
“Felix er hér í sínu besta formi... einlægnin þvílík að sterkt samband
myndast við áhorfendur án nokkurra hafta..”
“Hér er margt sem gleður augu og eyru, ekki síður fullorðinna en barna...
.ef einhver hefur einhvern tímann átt erfitt með að komast til botns í
gátunni um hvernig gömlu, hrekkjóttu sauðalitajólasveinarnir urðu að hinum
gjafmildu öðlingum sem þeir eru í dag, þarf sá hinn sami að drífa sig í
leikhús í fylgd nokkurra ungra leikhúsáhugamanna og finna svarið. Felix er
nefnilega búinn að komast að þessu og miðlar því á dæmalaust einstakan máta
í Tjarnarbíói nú fyrir jólin.”
|
|
|