Rómeó, Vera, Macbeth og Júlía
Kæri lesandi,
Næstu mánuði verð ég með annan fótinn í London þar sem ég sit á bókasafni við skriftir, auk þess sem ég fjarstýri leikhópnum Á senunni og undirbý næstu verkefni. Ég hef ekki haft möguleika til að vera í London af neinu viti í nokkur ár og ætla því að vera duglegur að sjá og upplifa það sem boðið er upp á í þessari paradís leikhúsunnenda. Mig langar til að deila með ykkur hugsunum mínum og upplifunum og mun því senda reglulega pistla inn á heimasíðuna. Þetta er til gamans gert og er alls ekki hugsað sem einhvers konar gagnrýni, heldur meira fyrir sjálfan mig til að greina og skilja það sem ég er að sjá. Vonandi verður þetta til upplýsingar og skemmtunar fyrir aðra, sérstaklega fyrir þá sem hyggja á ferð til London. Þessi fyrsti pistill verður nokkuð almennur, ég kem aðeins inn á ástandið á West End, Rómeó og Júlíu Vesturports, Macbeth sem gerist í Afríku og svo fjalla ég að lokum um nýjustu kvikmynd Mike Leigh, Veru Drake.
London iðar af lífi og þegar maður skoðar Time Out fyllast áhugamenn um menningu kvíða – það er svo margt sem mann langar til að sjá og upplifa! Hér er allt í bíó sem hugurinn girnist og leikhúsið er meira spennandi en oft áður. Það ber að mæla með Time Out fyrir þá sem hyggja á ferð til London. Þar er hægt að lesa um allt það heitasta í höfuðborginni. Heimasíðan er www.timeout.com En aftur að leikhúsinu. Hið gamalgróna West End leikhúshverfi virðist blómstra þessa dagana og leikhúsin full af ferðamönnum sem margir koma sérstaklega til London til að njóta leiklistar. Segið svo að leikhúsið sé dautt!! West End gekk í gegnum mjög erfiðan tíma eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum, fólk þorði ekki í miðbæinn af ótta við árás í London. Nú hefur sá ótti rénað og þangað til Osama eða IRA eða einhverjir félagar þeirra sprengja næst mun fólk láta sig hafa það að skella sér í leikhúsin. Heitustu sýningarnar á West End í augnablikinu eru tvær. Önnur er The Producers, sem kemur beint af Broadway þar sem sýningin nýtur enn gífurlegra vinsælda. Höfundur er Mel Brooks og er söngleikurinn byggður á kvikmynd eftir Brooks með sama nafni. Hin sýningin er Mary Poppins. Hér hafa menn beðið árum saman eftir sýningu byggðri á þessari vinsælu kvikmynd og nú tóku Cameron MacIntosh og Disney fyrirtækið sig til og kom sýningu á svið. Menn segja að hún hafi kostað rúman milljarð íkr að koma á svið en áður en sýningar hófust var búið að selja miða fyrir einn og hálfan milljarð! Það er ágætur bissness! Nú er bara hægt að fá föstudags og laugardagsmiða í september!! Ég er búinn að sjá Mary Poppins og skrifa um hana síðar.
West End er ansi peningakeyrt fyrirbrigði. Þar eiga sýningarnar að skila hagnaði! Það er því mikið um sýningar sem EIGA að verða vinsælar og EIGA að höfða til stórra hópa áhorfenda. Flestar þessara sýninga eru ekki spennandi heldur fyrirsjáanlegar og gamaldags en þó eru sem betur fer undantekningar á. Hin íslenska Rómeó og Júlía Vesturports er ein þessara spennandi undantekninga. Sýningin gekk á West End í tvo mánuði en er því miður ekki á fjölunum lengur. Ég sá sýninguna í Playhouse leikhúsinu í desember. Hún var frábær. Stóðst fullkomlega samanburð við sýningarnar á litla sviði Borgarleikhússins og Young Vic leikhúsinu í London þrátt fyrir að sviðssetningin væri allt öðruvísi. Leikhópurinn var mjög samstilltur og það var greinilegt að þessi mikla keyrsla hafði góð áhrif á sýninguna. Nýir leikarar höfðu bæst í hópinn og það gerði ekkert nema að styrkja það sem verið var að gera. Þegar ég sá sýninguna voru þekktir leikarar að sýna stuðning sinn við hópinn með því að mæta, eins og frægt er orðið, og fara með lokaorðin í sýningunni. Vanessa Redgrave hafði stuttu áður farið með lokaorðin en var aftur mætt á sýninguna, að þessu sinni með fjölskylduna með sér. Greinilega í aðdáendahóp Vesturports. Áður hafði t.d. Joanna Lumley stigið á stokk með hinum íslensku leikurum. Kvöldið sem ég mætti í leikhúsið var það enginn annar en goðið mitt, Derek Jacobi, sem birtist í lok sýningar. Ég viðurkenni að það fór um mig hrollur og nokkur höfg tár trilluðu niður kinnar mínar þegar stjarnan stóð á miðju sviði og flutti lokaorðin af einstakri tilfinningu. Það var svolítið eins og maður kæmi aftur niður á jörðina eftir hina stórfenglegu loftfimleika Gísla Arnar, Nínu og félaga. Ótrúlega áhrifaríkt og fallegt. Áhorfendur gátu vart hamið sig. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennilega grein fyrir þeim árangri sem Vesturport er búið að ná með þessari sýningu. Það er engum útlendingum boðið á West End nema viðkomandi sé einn af þeim stóru í leikhúsi heimsins. Listamennirnir á bak við Vesturport eru á góðri leið með að verða einmitt það. Auðvitað hefði maður viljað sjá betri aðsókn og lengra sýningartímabil en afrekið stendur fyrir sínu. Þau komust inn á West End, fengu frábæra gagnrýni, náðu athygli allra sem unna góðu leikhúsi og voru frábærir fulltrúar Íslands og íslensks leikhúss. Næsta verkefni Vesturports í Bretlandi er komið á koppinn, í samstarfi við leikhús og listamenn í London. Ég býst við að fréttir af því verkefni fari að komast í fjölmiðla bráðlega. Ég hvet ykkur til að fylgjast með framhaldinu. Vesturport er rétt að byrja. Ótrúlega spennandi! Ég óska krökkunum í Vesturporti og sérstaklega Gísla Erni, sem hefur leitt RJ-verkefnið af hreint aðdáunarverðum krafti, til hamingju með þennan stórkostlega árangur. Ég hafði það á tilfinningunni fyrir tæpum þremur árum þegar við frumsýndum Kvetch í litla leikrýminu sem þeir kölluðu Vesturport við Vesturgötuna í Reykjavík að eitthvað nýtt og spennandi væri um það bil að gerast en svona árangur dreymdi mann aldrei um.
Sýningin sem allir gagnrýnendur lofa þessa dagana er eins og Rómeó og Júlía óvenjuleg útgáfa af leikriti Shakespeares. Um er að ræða skoska leikritið eða Macbeth, leiksýningu sem er sett upp af Max Stafford-Clark og Out of Joint hópnum í Wilton´s Music Hall. Upprunalega var sýningin sýnd í Arcola leikhúsinu. Menn eru orðnir vanir ýmsum stælum og tengingum við nútmímann þegar kemur að uppsetningum á WS. Síðasta Macbeth sýning sem ég sá var algjörlega æðisleg útgáfa í Young Vic þar sem Anthony Sher lék illmennið. Á þeim tíma var hryllingurinn í Júgóslavíu mönnum enn í fersku minni og í sýningunni var unnið með líkindi Macbeth og Milosevic hjónanna. Ung og ástfanginn pör sem breyttust í valdasjúka morðingja. Í þessari nýju sýningu Stafford-Clark er Skotland orðið að Afríkuríki og dregnar eru skýrar línur á milli Idi Amin, Robert Mugabe og fleiri einræðisherra (lesist: vænissjúkra morðingja) í þeirri heimsálfu. Leikarar eru flestir af afrískum eða arabískum uppruna, utan Lady Macbeth (Monica Dolan) sem er hvítur Breti. Macbeth er leikinn af hinum reynda leikara Danny Sapani. Hann er kraftmikill og sterkur og maður sannfærist alveg um að í honum búi stríðsmaður. Þetta er sýning sem er unnin inn í rýmið og það finnst mér eiginlega mest spennandi við þetta verkefni, því rýmið er vægast sagt ótrúlega fallegt. Þetta “tónlistarhús” er frá því um 1850 og þeir segja að þetta sé elsta hús sinnar tegundar sem enn stendur í London. Enn á eftir að taka það betur í gegn, húsið er í algjörri niðurníðslu en möguleikarnir eru óendanlegir. Áhorfendur eru leiddir um rýmið, reknir fram og til baka af klikkuðum hermönnum, sumum vart eldri en 9 ára og leigumorðingjar Macbeth bjóða gestum meira að segja að greiða smáupphæð fyrir að sjá blóðbaðið í kastala McDuff. Gagnrýnin á gægjuþörf nútímamannsins er svo óvægin að mann svíður undan. Það sem pirraði mig við uppsetninguna var að það var erfitt að skilja leikarana og því fór leikritið sjálft svolítið fyrir ofan garð og neðan. En leikhúsupplifunin var sannarlega spennandi og ég mæli eindregið með því að þeir sem þekkja verkið skelli sér. Sýningartímabilið hefur verið framlengt til 5. febrúar. Ég mæli líka með að menn lesi leikskrána, sem er frábærlega upplýsandi um ýmislegt sem kemur fyrir í sýningunni. Meiri upplýsingar má örugglega finna á heimasíðu Out of Joint www.outofjoint.co.uk
Að lokum langaði mig að segja ykkur frá helstu upplifun minni þessar vikurnar en það var hin nýja kvikmynd Mike Leighs, Vera Drake. Þvílík snilld!! Ég hef verið ML aðdáandi allt frá því að ég sá High Hopes fyrir nokkrum árum en að mínu mati verður meistarinn alltaf betri og betri. Hér hjálpast allt að. Leikurinn er algjörlega með ólíkindum góður og leikhópurinn vinnur saman eins og smurð vél, sagan heldur manni við efnið, tilfærslan í tíma er eins og best verður á kosin enda gífurleg vinna unnin við gagnaöflun. Kvikmyndagerðin er einhvernveginn óaðfinnanleg (ef hægt er að tala um slíkt þegar kemur að listsköpun). Sagan gerist í London árið 1950 og segir frá verkakonunni, Veru Drake, og fjölskyldu hennar. Á yfirborðinu er allt slétt og fellt. Vera Drake er ljósgeisli í lífi allra í kringum sig, sívinnandi og puðandi, en alltaf brosandi og glöð. Lausn hennar á öllum vandamálum er að skella nýuppáhelltu tei á borðið. Hún er eins og engill sem bætir líf allra sem hún á samskipti við. En Vera Drake á sér leyndarmál. Af góðsemi og án vitneskju fjölskyldu sinnar hjálpar hún ungum stúlkum sem eiga í vandræðum. Hún stundar ólöglegar fóstureyðingar. Þegar glæpurinn kemst svo upp, hrynur veröld fjölskyldunnar. Í myndinni er líka dregin upp sterk mynd að ólíkum veruleika þeirra fátæku og þeirra sem betur mega sín. Tímabilið er líka svo merkilegt. Árin þegar allir voru eins og dofnir eftir stríðið mikla, árin sem við fjöllum eiginlega aldrei um, gleymdu árin. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa upplifuninni af því að sjá Veru Drake en ástandið í kvikmyndahúsinu var þannig að það stóð enginn áhorfenda upp í nokkrar mínútur eftir að sýningunni lauk. Maður var lamaður. Sagan er sögð af þvílíku næmi að manni finnst maður geta snert fólkið á tjaldinu. Kvikmyndin er algjörlega laus við óþarfa tilfinningasemi og væmni. Það eru engar stórar ræður eins og í sápuóperuruslinu sem við erum alltaf að láta mata okkur á (og á uppruna sinn í Hollywood). Réttarhaldið í kvikmyndinni er einfalt og skelfilegt. Nákvæmlega eins og maður getur ímyndað sér að svona réttarhald sé og hafi verið í raun og veru. Ég ímynda mér með hryllingi hvernig svona sena hefði verið skrifuð og leikin hefði stjarnan verið Maryl Streep eða Julia Roberts en ekki hin pínulitla og hokna Imelda Stanton! ML er meistari í að segja sögur í kvikmynd. Þetta er evrópsk kvikmynd, eins og evrópskar kvikmyndir gerast bestar, unnin af natni og án allrar verksmiðjuframleiðslu. Kvikmyndin var æfð í 6 mánuði áður en tökur hófust. Það sést líka á persónum, sem eru ótrúlega heilsteyptar. Sagan upphefur hversdaginn og sýnir okkur lífið eins og við þekkjum það. Það er enginn neitt sérstaklega vondur eða sérstaklega góður. Við erum bara einfaldlega manneskjur. Vera Drake er kvikmynd sem ALLIR verða að sjá. Ég vona innilega að henni skoli á land á Íslandi.
Að lokum. Það er byrjað að selja miða á A Minute Too Late sem er endurfrumsýning á einni fyrstu uppsetningu Theatre Complicité. Sýnt er í National Theatre, Cottesloe og sýningar hefjast 27. janúar. Má ekki missa af því!
Meira í næstu viku J Kær kveðja frá London
Felix