Senda tölvupóst!
 

Leikhópurinn Á senunni frumsýnir kabarettverkið:
Paris at night
sem byggt er á textum franska ljóðskáldsins Jacques Prévert.


Prévert fæddist í Frakklandi árið 1900 og lést 1977. Hann varð ungur meðlimur í hreyfingu súrrealista sem var leidd af André Breton og Louis Aragon. Ljóð Prévert draga almennt dám af þessari stefnu og einnig þeim tíðaranda sem einkenndi fjórða áratuginn (geggjaða áratuginn) eða París millistríðsáranna. Frelsi, hömluleysi, hverfulleiki ástarinnar og dýrð hversdagsins má segja að séu lykilorð þegar lýsa á ljóðum Prévert. Það er þó oft stutt í hið spaugilega í hversdeginum. Ljóðasafnið Paroles kom út árið 1945 og hefur selst í milljónaupplagi um heim allan og á hundrað ára ártíð Préverts var safnið formlega sett inn á lista yfir sígildar franskar bókmenntir. Paroles hefur komið út í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og ber heitið Ljóð í mæltu máli (Mál og menning 1987).

Sýningin Paris at night mun fanga þennan tíðaranda með nýstárlegri kabarettsýningu þar sem ljóðleikur, söngur, tónlist og kvikmyndalist vinna saman að því að skapa einstaka leikhúsupplifun. Tónlistin er eftir Joseph Kosma, félaga og vin Préverts en mörg laganna í sýningunni hafa notið mikilla vinsælda í Frakklandi allt fram á þennan dag, en þau hafa verið flutt af ekki ómerkari söngvurum en Yves Montand, Juliette Greco og Edith Piaf. Paris at night er samstarfsverkefni leikhópsins Á senunni og Leikfélags Reykjavíkur.

Geisladiskur með tónlistinni úr Paris at night.
Í september 2004 fóru fram hljóðritanir á tónlistinni úr verkinu í Borgarleikhúsinu.  Karl Olgeirsson var tilnefndur til Grímunnar 2004 fyrir Tónlist ársins fyrir vinnuna við Paris at night.  Zonet dreifir geisladisknum.
Tóndæmi hér!
Þú þarft að hafa Quicktime hugbúnað til að heyra!
Viltu eignast Paris at night diskinn?  Hann mun fást í öllum betri hljómplötuverslunum en þú getur líka skrifað okkur á senan@senan.is eða hringt í síma 866 0011.  Einnig er hægt að vera í sambandi við Zonet í síma 520 7600 eða á heimasíðunni www.zonet.is  



Leikendur sýningarinnar eru Felix Bergsson og Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir. Hljómsveitarstjórn er í höndum Karls Olgeirssonar en með honum leika Stefáni Már Magnússon á gítar og Róbert Þórhallsson á bassa. Elín Edda Árnadóttir er hönnuður búninga og leikmyndar og um lýsingu sér Egill Ingibergsson. Þá sér Hollendingurinn Gideon Kiers um myndbandstækni, sem skapar sýningunni nýstárlega umgjörð.