|
|
Svik eftir Harold Pinter
SVIK er opinskárra en flest leikrit Pinters og fjallar um hjónin Robert (Ingvar E. Sigurðsson) og Emmu (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) og Jerry (Felix Bergsson), vin þeirra til langs tíma.
Undirferlið blómstrar í samskiptum aðalpersónanna þriggja. Emma og Jerry svíkja Robert. Robert svíkur Jerry og Emma og Robert svíkja hvort annað.
Við kynnumst Emmu og Jerry tveimur árum eftir lok sjö ára ástasambands þeirra. Þau sneiða snilldarlega hjá spennunni sem greinilega eimir eftir. Emma tjáir Jerry að hjónabandi hennar og Roberts sé að ljúka og að sannleikurinn hafi litið dagsins ljós. Síðan færir hvert atriði þessa áhrifamikla sjónleiks okkur aftur í tíma til þess örlagaríka augnabliks er framhjáhaldið hefst, og kynnumst á leiðinni hinum flókna vef vináttu og samskipta sem tengir líf aðalpersónanna. Í upplifun endurminninganna verður gamall sannleikur lygi og lygi snýst upp í nýjan sannleik þar til leyndarmálin hafa öll litið dagsins ljós.
Svik er grípandi og spennandi leikrit um hinn eilífa ástarþríhyrning. Hrífandi og meistaralega vel skrifað verk. Leikrit sem talar á persónulegan hátt og af miklum þunga til áhorfenda. Senu fyrir senu erum við leidd afturábak í tíma og sjáum ástina dofna, traustið deyja, allt til enda verksins þegar ástarsambandið byrjar og allir eru fylltir af glæstum vonum og brennandi ástríðum. Allir sem hafa gott minni vita að það er erfiðara að muna lygina en sannleikann.
Leikritið hefur notið gríðarlegrar hylli á undanförnum árum og þykir eitt besta verk Pinters.
Verkið er nú frumflutt á Íslandi.
Leikmynd: Jón Axel Björnsson
Búningar: Filippía Ingibjörg Elísdóttir
Tónlist: Gunnar Hrafnsson
Lýsing: Benedikt Axelsson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson
Leikhópurinn Á senunni í samstarfi við Leikfélag Akureyrar, Sögn ehf. og Borgarleikhúsið standa að sýningunni SVIK. |
|
|
|