Senda tölvupóst!
 

Fréttir

Leikhópurinn Á senunni, Hafnarfjarðarleikhúsið og Drill Hall í London kynna:
30.10.2009

Ævintýrið um Augastein
Frábær jólasýning fyrir alla fjölskylduna!

Sló í gegn í Liverpool! Næst er það Hafnarfjörður og svo London!

Frá London desember 2009
Frá sýningu í desember 2009 fyrir skólabörn í Snowfields Primary skólanum í London.
Leikritið verður sýnt í 10 barnaskólum í London að þessu sinni.


Leikhópurinn Á senunni kynnir enn á ný hina margrómuðu og yndislega fallegu jólaleiksýningu Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson, í samstarfi við Kolbrúnu Halldórsdóttur og Helgu Arnalds, sem verður að nýju sýnd í nóvember og desember 2009 í Hafnarfjarðarleikhúsinu (www.hhh.is)

London desember 2009

Sýningin var upprunalega hönnuð sem farandsýning og þetta árið fer hún enn á flakk. Laugardaginn 21. nóvember var hún sýnd á NICE listahátíðinni í Liverpool og sló í gegn í Unity leikhúsinu (www.nice-festival.co.uk) Áhorfendur fylltu tvær sýningar og skemmtu sér hið besta (sjá dóm: http://hopestreet.co.uk/2009/11/icelandic-puppets-at-unity-theatre/) Næst heldur hópurinn með sýninguna til London og verður í Drill Hall leikhúsinu 5. og 6. desember (www.drillhall.co.uk) og heldur að því loknu í stutta leikferð í skóla í nágrenni London áður en haldið verður aftur heim í Hafnarfjörðinn. Þess má geta að barnabókin Ævintýrið um Augstein fékk glimrandi viðtökur fyrir jólin 2003 og seldist í þúsundum eintaka.

Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í London árið 2002 og á Íslandi árið 2003. Verkið byggir á hinni sígildu sögu um Grýlu og jólasveinana en ævintýrið er tekið lengra og sagan um litla drenginn, sem nefndur er Augasteinn, verður miðpunktur leikritsins. Augasteinn lendir fyrir tilviljun í höndum hinna hrekkjóttu jólasveina sem læra smám saman að elska litla drenginn og annast hann. Skyndilega kemst Grýla á snoðir um tilveru barnsins og við tekur æsispennandi flétta. Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og Jólakattarins áður en jólin ganga í garð? Það er Felix Bergsson sem leikur öll hlutverkin í Ævintýrinu um Augastein. Brúður og leikmynd eru eftir Helgu Arnalds, lýsingu hannaði Jóhann Bjarni Pálmason og tónlistin var útsett af Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni fyrir Háskólakórinn undir stjórn Hákons Leifssonar. Hljóðmynd er verk Sveins Kjartanssonar. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.
Miðasala er á www.midi.is

Sýningar sem í boði eru verða sunnudagana 29. nóvember og 13. desember, kl. 14.00 og 16.00
Athugið – aðeins þessar sýningar!!


Leikhópurinn Á senunni sem hélt upp á 10 ára afmæli nú á árinu fékk Grímuna fyrir leiksýningu ársins árið 2003, Kvetch og aftur árið 2007 fyrir barnasýningu ársins, Abbababb!


“Þetta leikrit Felix Bergssonar er þeim kostum búið að hér er fullt af dramantískri spennu..” “Hér er margt sem gleður augu og eyru, ekki síður fullorðinna en barna... ef einhver hefur einhvern tímann átt erfitt með að komast til botns í gátunni um hvernig gömlu, hrekkjóttu sauðalitajólasveinarnir urðu að hinum gjafmildu öðlingum sem þeir eru í dag, þarf sá hinn sami að drífa sig í leikhús í fylgd nokkurra ungra leikhúsáhugamanna og finna svarið. Felix er nefnilega búinn að komast að þessu og miðlar því á dæmalaust einstakan máta ... nú fyrir jólin.” (SH, Mbl.)

“Yndisleg sýning þar sem hæfileikar Felixar til að ná til barna nýtast að fullu! ... Perla!” (SS, Rás 2)

“Sagan af Augasteini litla stendur fyllilega fyrir sínu því þetta er yndisleg saga..” “Allt um vefjandi einlægni og kærleikur gefa bókinni mikið gildi. Felix hefur sprelllifandi frásagnargáfu..” (dómur um bókina, KHK, Mbl.)

Paris at night Tónleikar í Kópavogi og á Akureyri í nóvember!
30.07.2008
Leikhópurinn Á senunni snýr aftur og nú með tónleika byggða á hinni frábæru sýningu Paris at night sem hópurinn setti upp árið 2004 í samvinnu við LR í Borgarleikhúsinu. Tónleikarnir verða haldnir í Salnum í Kópavogi 4. og 5. nóvember og í Samkomuhúsinu á Akureyri 12. nóvember 2008

Paris at night er byggt á ljóðum Jacques Prévert og tónlist Joseph Kosma. Þýðingar ljóðanna eru eftir Sigurð Pálsson. Leikarar/söngvarar í sýningunni eru Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Felix Bergsson . Hljómsveitin er undir stjórn Karls Olgeirssonar, en auk hans eru í henni Róbert Þórhallsson og Stefán Már Magnússon. Texti um Jacques Prévert verður fluttur af Gerard Lemarquis. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.

Paris at night gekk fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu vorið og haustið 2004 og var sýningin tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir bestu tónlistina það árið. Plata með tónlistinni og völdum ljóðum kom út haustið 2004. Hana er enn hægt að nálgast hjá hópnum. Ljóðaþýðingar Sigurðar Pálsson, Ljóð í mæltu máli, eru uppseldar.

Dómar gagnrýnenda um sýninguna voru lofsamlegir.

“Perla!” (Stefán Sturla, Rás 2)

“Kolbrúnu Halldórsdóttur hefur tekist að búa til (...) sýningu sem tekst að kalla fram hinn hreina og tæra kjarna sem einkennir ljóð Jacques Préverts...”

“Kannski er það vegna þess að rödd Jóhönnu Vigdísar fellur svo vel að efninu eða ef til vill vegna þess að efnið kallar á slíka rödd – a.m.k. er auðvelt að sannfærast um að einmitt svona eigi að syngja þessi ljóð í hvert sinn sem Jóhanna Vigdís hefur upp raust sína í sýningunni.”

“Hér er eins og maður hafi fest hendur á einhverju sönnu og tæru eftir að hafa vaðið endalaust um í ótræðismýri falskra tilfinninga og ofhlæðis. Hér finnst loks hinn eini sanni tónn eftir óralanga leit.” (Sveinn Haraldsson, Mbl.)

Tónleikarnir verða eins og áður sagði í byrjun nóvember í Salnum í Kópavogi og Samkomuhúsinu á Akureyri. Miðasala verður hjá Salnum, Leikfélagi Akureyrar og á www.midi.is Nánari upplýsingar má nálgast hjá Leikhópnum Á senunni.

Augasteinn snýr aftur
3.desember 2007
Augasteinn á fjölunum í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Sýningar verða:
Sunnudaginn 9. des. kl. 12.00 og 17.00
Sunnudaginn 16. des. kl. 12.00 og 17.00
Miðasala hér!

Abbababb! eftir Dr. Gunna: Gestur númer 6.000 um helgina!
24.október 2007
Barnasýning ársins 2007, Abbababb! eftir Dr. Gunna í leikstjórn Maríu Reyndal, hefur algjörlega slegið í gegn í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Um helgina mun gestur númer 6.000 fá gjöf frá Leikhópnum Á senunni og Hafnarfjarðarleikhúsinu. Verkið hefur verið á fjölunum frá því í febrúar og aðsókn og stemmning verið með eindæmum góð. Það hefur líka mikið gengið á og sem dæmi má nefna að 4 leikarar hafa leikið hlutverk Hr. Rokk!!
Abbababb! er á góðri leið með að verða næst aðsóknarmesta sýning Leikhópsins Á senunni á eftir Kabarett, en tæplega 10.000 gestir sáu þá sýningu í Íslensku óperunni. Í tengslum við Abbababb! kom út geisladiskur með tónlistinni og að auki mun sagan eftir Dr. Gunna koma út í bók á næstu vikum.

Abbababb! mun fara af fjölunum í nóvember. Það eru því síðustu forvöð að sjá þessa frábæru sýningu. Næstu sýningar eru sunnudagana 28. október og 4. nóvember. Síðasta sýning er auglýst sunnudaginn 11. nóvember. Miðasala fer fram í Hafnarfjarðarleikhúsinu og á www.midi.is

Abbababb! vefurinn kominn í loftið!
7.febrúar 2007
Við opnuðum abbababb.is í gær.. þar eru allar upplýsingar..

Abbababb! Fyrstu sýningar komnar í sölu!
5.febrúar 2007
Fyrstu sýningar á Abbababb verða sem hér segir:
Lau
10. febrúar kl. 16.00 – forsýning (lægra miðaverð)
Sun
11. febrúar kl. 17.00 – Frumsýning (örfá sæti laus)
Lau
17. febrúar kl. 14.00 – 2. sýning
Lau
17. febrúar kl. 17.00 – 3. sýning
Miðasala hefst í dag. Hægt er að panta miða á senan@senan.is eða hringja í miðasölu Hafnarfjarðarleikhússins í síma 555 2222. Miðaverð er 2400 krónur.
Geisladiskurinn með tónlistinni úr sýningunni kemur út 20. febrúar. Hægt
er að nálgast hann á senan@senan.is og kaupa í Hafnarfjarðarleikhúsinu.
Ástin er rokk og ról!

Diskurinn með tónlistinni í söngleiknum Abbababb! hefur verið tekinn upp og fer í fjöldaframleiðslu í vikulokin.
30.janúar 2007
Hann ætti að vera kominn til landsins í kringum frumsýningu, 11. febrúar.
Á diskinum eru 16 lög, hvert öðru skemmtilegra. Flest eru gömul og kunn en þó eru nokkrar nýjar perlur inn á milli.

Abbababb! frumsýnt 11. febrúar!
25.janúar 2007
Leikhópurinn Á senunni og Hafnarfjarðarleikhúsið kynna barnasöngleikinn ABBABABB! eftir Dr. Gunna Frumsýning 11. febrúar í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Strandgötu 50, Hafnarfirði.
Tvö af fremstu leikhúsum landsins, Leikhópurinn Á senunni og
Hafnarfjarðarleikhúsið, sameina krafta sína og kynna splunkunýjan íslenskan
söngleik fyrir börn.

Ævintýrið um Augstein Uppselt á sunnudaginn!
15.desember 2006
Leikhópurinn Á senunni þakkar frábærar viðtökur við Ævintýrinu um Augastein í Tjarnarbíói. Nú er uppselt á síðustu sýninguna kl. 16 á sunnudaginn 17. des en ósóttar pantanir verða seldar fyrir sýningu. Miðasalan opnar kl. 15.00.
Þeir sem ekki sjá Augastein þetta árið ættu ekki að örvænta. Við munum koma aftur með sýninguna í desember 2007!

Augasteinn snýr aftur!
22. nóvember 2006
Leikhópurinn Á senunni kemur enn aftur með hina margrómuðu jólaleiksýningu Ævintýrið um Augastein eftir Felix Bergsson. Tvær almennar sýningar verða, sunnudagana 10. og 17. desember kl. 16.00 í Tjarnarbíói í Reykjavík. Einnig er hægt að semja um sérstakar sýningar fyrir hópa. Það er orðinn fastur liður í jólastemmningunni hjá mörgum að rifja upp Ævintýrið um Augastein, kíkja kannski í bæinn, fá sér kakó og piparköku, versla smá og skella sér svo í leikhúsið!

Ævintýrið um Augastein var frumsýnt í London árið 2002. Verkið byggir á hinni
sígildu sögu um Grýlu og jólasveinana. Lítill drengur, Augasteinn, lendir fyrir
tilviljun í höndum hinna hrekkjóttu jólasveina. Sveinarnir skrýtnu eru skíthræddir
við lítil börn en þeir læra smám saman að elska litla drenginn og annast hann.
Skyndilega kemst Grýla á snoðir um tilveru barnsins og við tekur æsispennandi
flétta.

Það eru frábærir listamenn sem koma að Ævintýrinu um Augastein. Brúður og leikmynd eru eftir Helgu Arnalds, lýsingu hannaði Jóhann Bjarni Pálmason og tónlistin var útsett af Hróðmari Inga Sigurbjörnssyni fyrir Háskólakórinn undir stjórn Hákons Leifssonar. Hljóðmyndin er verk Sveins Kjartanssonar. Felix Bergsson leikur öll hlutverkin. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir. Barnabókin Ævintýrið um Augastein fékk glimrandi viðtökur fyrir jólin 2003 og seldist í þúsundum eintaka. Nánari upplýsingar, myndir, gagnrýni og annan fróðleik má finna hér á heimasíðunni. Hljóðbrot úr sýningunni (MP3)

Miðasala er í síma 891 8815. Einnig má skrifa okkur á senan@senan.is

Hægt er að greiða miðana með því að leggja inn á reikning leikhópsins Á senunni (kt. 620798 2239, reikn. 1150 26 50995) og senda okkur kvittun ásamt skýringu, t.d. sýningardag. Miðinn kostar 1.500 kr.

Einnig er hægt að greiða fyrir miða með peningum, VISA eða Euro eða debetkorti. Það er óþarfi að koma á staðinn ef þið sendið okkur pöntun á netinu (senan@senan.is) upplýsingar um kreditkort, númer og aðrar upplýsingar. Þá munu miðarnir bíða ykkar í leikhúsinu á sýningardag.

Miðasalan verður líka opin í Tjarnarbíói, Tjarnargötu 12, sem hér segir:

Mið 6. des kl. 12.00 – 13.00
Fim 7. des kl. 16.00 – 18.00
Fös 8. des kl. 16.00 – 17.00
Lau 9. des kl. 12.00 – 14.00
Sun 10. des kl. 14.00 – 16.00

Nýtt lag í Abbababb!
31. ágúst 2006
Dr. Gunni er búinn að semja nýtt lokalag í söngleikinn Abbababb!  Lagið heitir Ástin er rokk og ról og er að sögn þeirra sem heyrt hafa “algjörlega meiriháttar”.  Viðlagið er svo grípandi að það límist á heilann og maður syngur hástöfum með við fyrstu hlustun.  Undirbúningur fyrir söngleikinn gengur vel.  Nánari fréttir hér á heimasíðunni síðar.

Jólaleikrit í júlí!
29. júní 2006

Leikhópurinn Á senunni tekur þátt í Act Alone á Ísafirði nú um helgina 29. júní – 2. júlí.  Hátíðin er haldin að frumkvæði Elfars Loga Hannessonar, leikara og athafnamanns á Ísafirði.  Elfar Logi rekur leikhús sem heitir Kómedíuleikhúsið og hefur staðið fyrir leiksýningum sem frumsýndar hafa verið á vestfjörðum undanfarin ár.  Meðal sýninga Kómedíuleikhússins eru Muggur, Steinn Steinarr og Gísli Súrsson. 

Það er óhætt að segja að dagskrá Act Alone sé sérstaklega glæsileg og koma sýningar allsstaðar að.  Dagskrána má skoða á www.actalone.net   Framlag leikhópsins Á senunni er barnaleikritið Ævintýrið um Augastein.  Verkið hefur aldrei áður verið sýnt á öðrum tíma en jólatímanum.  Þess má líka geta að Helga Arnalds, einn af höfundum Ævintýrisins um Augastein, verður með aðra sýningu á hátíðinni, Mjallhvíti.

Leikhópurinn Á senunni óskar Elfari Loga og Kómedíuleikhúsinu innilega til hamingju með Act Alone.  Það er mikil gæfa fyrir vestfirðinga að kraftmiklir einstaklingar eins og Elfar Logi standi fyrir uppákomum á borð við hátíðina.

Abbababb! – undirbúningur í fullum gangi og gengur vel!
28.júní 2006

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá undirbýr Leikhópurinn Á senunni nú uppsetningu á barnasöngleiknum Abbababb! eftir Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunna.  Óhætt er að segja að undirbúningur gangi vel og er stefnt að frumsýningu í janúar 2008. 

Nýjustu fréttir eru að leikstjóri hefur verið ráðinn til verksins.  Þar er á ferð María Reyndal en hún er einn af reyndustu leikstjórum Íslands af yngri kynslóðinni og hefur leikstýrt barnasýningum á borð við Karíus og Baktus í Þjóðleikhúsinu og Línu Langsokk fyrir Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.  Þá leikstýrði María t.d. Ausu og Stólunum hjá Leikfélagi Akureyrar og leikhússmellnum Beyglum með öllu í Iðnó.  María er ein af Stelpunum á Stöð 2.  Leikhópurinn Á senunni væntir mikils af samstarfinu við Maríu og býður hana velkomna í hópinn.

Fylgist með, fréttir af leikhópnum og listrænum stjórnendum koma inn á heimasíðuna á næstu vikum. 

27. júní 2006.  Stór dagur í sögu lítillar þjóðar.
27.júní 2006
Leikhópurinn Á senunni fagnar þeim réttarbótum sem samkynhneigðir Íslendingar fengu með lagabreytingum, en þær tóku gildi í dag.  Þessar lagabreytingar tryggja að samkynhneigðir hafa sömu réttindi og gagnkynhneigðir þegar kemur að fjölskyldulífi.  Stærstu skrefin eru óneitanlega rétturinn til frumættleiðinga, réttur lesbískra para til tæknifrjóvgunar og rétturinn til að skrá sig í sambúð.  Kirkjan, með biskupinn í broddi fylkingar, dregur enn lappirnar og stöðvaði rétt trúfélaga til að gefa samkynhneigð pör saman.  Trúaðir geta þó fengið blessun frjálslyndra presta.

Sigur er unnin!  Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því leikhópurinn Á senunni frumsýndi leikritið Hinn fullkomna jafningja í Íslensku óperunni 3. janúar 1999.  Við trúum því að við höfum lagt okkar lóð á vogarskálar mannréttinda með Hinum fullkomna jafningja, þátttöku í umræðu um stöðu samkynhneigðra á landsvettvangi (og alþjóðavettvangi) og með beinum afskiptum Kolbrúnar Halldórsdóttur inni á Alþingi Íslendinga.  Við óskum öllum Íslendingum til hamingju með daginn.

Gleðifréttir!  Leikhópurinn Á senunni hlýtur styrk frá Menntamálaráðuneyti!
1. febrúar 2006
Leikhópurinn Á senunni hlaut i gær (31. janúar) styrk að upphæð 5,9 milljónir frá Menntamálaráðuneyti að tillögu Leiklistarráðs.  Verkefnið sem liggur til grundvallar styrkveitingunni er barnasöngleikur eftir Dr. Gunna og Felix Bergsson, byggður á plötunni Abbababb sem Dr. Gunni sendi frá sér árið 1997.  Flestir þekkja hinn óviðjafnanlega smell Prumpulagið en á plötunni má einnig finna önnur bráðskemmtileg barnalög.  Stefnt er að uppsetningu söngleiksins á haustinu 2006.
Leikhópurinn Á senunni þakkar traustið sem hópnum er sýnt með styrkveitingunni og heitir að vinna áfram að leiklist sem skiptir samfélagið máli.

Ævintýrið um Augastein - miðasalan opin!
14. desember 2005
Kæru leikhúsgestir,
Miðasala vegna sýninga í desember verður opin í Tjarnarbíói, Tjarnargötu 12,
sem hér segir:


Mið 14. des kl. 12.00 – 13.00
Fim 15. des kl. 16.00 – 18.00
Fös 16. des kl. 16.00 – 17.00
Lau 17. des kl. 16.00 – 17.00
Sun 18. des kl. 12.00 – 16.00
Almennt miðaverð er aðeins 1000 krónur! Það er hægt að greiða með peningum,
VISA eða Euro eða debetkorti. Það er óþarfi að koma á staðinn ef þið sendið
okkur pöntun á netinu (senan@senan.is), upplýsingar um kreditkort, númer og
aðrar upplýsingar. Þá munu miðarnir bíða ykkar í leikhúsinu á sýningardag.Einnig er hægt að greiða miðann með því að leggja inn á reikning leikhópsins
Á senunni (kt. 620798 2239, reikn. 1150 26 50995) og senda okkur kvittun
ásamt skýringu. Þá munu miðarnir bíða ykkar í leikhúsinu á sýningardag. Við hlökkum til að sjá börn á öllum aldri á Ævintýrinu um Augstein!
Kær jólakveðja

Leikhópurinn Á senunni

Fullkomin heimsókn á Akureyri.
13. desember 2005
Leikhópurinn Á senunni lék Ævintýrið um Augastein þrisvar sinnum á Akureyri
um helgina. Er skemmst frá því að segja að heimsóknin var sérstaklega vel
heppnuð, húsið troðfullt og viðtökur hlýjar. Leikhópurinn þakkar
Akureyringum frábærar móttökur. Sérstaklega vill hópurinn þakka Magnúsi
Geir Þórðarsyni og hans fólki hjá Leikfélagi Akureyrar. Það er alltaf gott
að koma á Akureyri en það er einstaklega ánægjulegt þegar krafturinn er
svona mikill í leikfélaginu. Við vonumst til að geta komið norður með
Augastein og aðrar sýningar okkar aftur og aftur.
Sýningin LA, Fullkomið brúðkaup, er sannarlega fullkomin kvöldskemmtun og
fóru leikararnir á kostum. Það skemmdi ekki fyrir að sjá félaga okkar,
Jóhann Hauk og Guðjón Davíð, fara á kostum en þeir byrjuðu leikárið í
Kabarett. Leikhópurinn Á senunni mælir heilshugar með Fullkomnu brúðkaupi
og hvetur landsmenn til að skella sér norður, njóta þess sem Akureyri hefur
upp á að bjóða og hlæja sig máttlausa í Samkomuhúsinu! Nánari upplýsingar
um dagskrá Leikfélags Akureyrar má finna á www.leikfelag.is

Augasteinn laðar að!
5. desember 2005
Miðasala komin á gott skrið á Ævintýrið um Augastein. Þeim miðum fækkar nú hratt sem í boði eru og minnum við áhugasama um að hika ekki of lengi!
Nánar...

Sýningum á Kabarett lokið
29.nóvember 2005
Leikhópurinn Á senunni þakkar öllum sem hafa komið að Kabarett.
Sýningum er lokið. Sýningar urðu 26 og áhorfendur rúmlega 9 þúsund. Að verkefninu hafa komið tugir listamanna og starfsfólks.
Sérstakar þakkir fá stjórnendur og starfsfólk SPRON fyrir einstakan samstarfsvilja og skilning. Aðrir styrktar og samstarfsaðilar fá einnig hjartans þakkir. Þeir eru:
Ríkisútvarpið, Allied Domecq, Codorniu freyðivín, Morgunblaðið, Kaffi
Sólon, Olís, Toyota, Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur, Netspor,
Á þakinu ehf, Krummafilms, Anok ehf, Ennemm auglýsingastofa, Orri
Vigfússon, Exton, Íslenska óperan og Reykjavíkurborg.
Við minnum á geisladiskinn með tónlistinni úr Kabarett sem fæst í öllum
betri hljómplötuverslunum. Drefing er í höndum Senu ehf.


Jólagjafirnar í ár...
25. nóvember 2005
Leikhópurinn Á senunni minnir á frábærar jólagjafir fyrir þessi jól!
- geisladiskur með tónlistinni úr Kabarett, flutt af okkar bestu listamönnum. Meðal söngvara eru Þórunn Lárusdóttir, Magnús Jónsson, Felix Bergsson, Edda Þórarinsdóttir, Inga Björg Stefánsdóttir, Borgar Garðarsson og margir fleiri. Meðal tónlistarmanna eru Sigtryggur Baldursson, Sigurður Flosason og Mattías Stefánsson. Tónlistarstjóri er Karl Olgeirsson. Frábær gjöf og mikilvæg minning um leiksýninguna.
- geisladiskur með tónlistinni úr Paris at night. Flytjendur eru Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Felix Bergsson, Róbert Þórhallsson, Stefán Már Magnússon og Karl Olgeirsson, sem jafnframt er tónlistarstjóri. Stórkostlegur diskur sem hentar frábærlega til gjafa, jafnt heima sem erlendis!

Einnig minnum við jólasveina á að miði á Ævintýrið um Augastein er tilvalinn í skóinn..

 

 

 

Sýningum að ljúka á Kabarett og að hefjast á Ævintýrinu um Augastein.
18. nóvember 2005
Augasteinn fer norður á Akureyri en verður einnig sýndur í Tjarnarbíói og á leikskólum í Reykjavík fyrir þessi jól.
Meira...

Ævintýrið um Augastein –
sýningar á Akureyri og í Reykjavík í desember 2005

19.september 2005
Leikhópurinn Á senunni tók þátt í Barnaleikhúsmessu Fræðlusmiðstöðvar, Sjálfstæðu leikhúsanna og Assitej - Samtaka um barnaleikhús á dögunum. Í kjölfarið býður leikhópurinn skólum og hópum upp á sýningar á barnaleikritinu Ævintýrið um Augastein í Tjarnarbíói og í Samkomuhúsinu á Akureyri í desember. Nú þegar er byrjað að bóka sýningar. Nánari upplýsingar veitir Felix Bergsson í síma 861 9535. Einnig má skrifa okkurá senan(hjá)senan.is

Kabarett – miðasalan fer vel af stað!
12.júlí 2005
Miðasala á Kabarett er hafin.  Ekki er hægt að segja annað en að salan fari vel í gang.  Hún er eingöngu á netinu á www.kabarett.is (www.opera.is) Miðasala í Óperunni opnar 26. júlí.  Sími miðasölu er 511 4200.  Einnig er hægt að skrifa okkur og bóka miða á midasala@opera.is
Leikhópurinn Á senunni verður með sérstaka Hinsegin hátíðarsýningu í tilefni af Hinsegin dögum í Reykjavík.  Hátíðarsýningin verður laugardaginn 6. ágúst kl. 20.00.  Allir gestir verða gladdir með Codorniu freyðivíni.  Miðasala á hátíðarsýninguna er nú í fullum gangi.

Æft í Óperunni...
5. júlí 2005
Við erum byrjuð aftur að æfa og nú erum við komin á svið í óperunni. Snorri og hans fólk búið að leggja dag við nótt ...
Meira...

Fjölgun í Kabarett-liðinu!!
5. júlí 2005
Það er ekki að spyrja að kraftinum í Kabaretthópnum. Nú síðast urðu þau
gleðitíðindi að Ingvari Sverrissyni, framkvæmdastjóra, og eiginkonu
hans, Hólmfríði Óskarsdóttur, fæddist glæsilegur sonur! Litli prinsinn
kom í heiminn um það leyti sem leikhópurinn var að hefja fyrsta rennsli
sitt á Kabarett á sviði Íslensku óperunnar, eða 4. júlí, kl. 18.50. Sá
nýfæddi var 16 merkur og 54 cm. Leikhópurinn Á senunni óskar Fríðu og
Ingvari innilega til hamingju og leggur til nöfn eins og Cliff, Emmsé
eða Salvar!
Lífið er sannarlega kabarett!


KABARETT – Miðasalan hefst 11.júlí kl. 14.00
4. júlí 2005
Miðasala fyrir Kabarett hefst formlega 11. júlí kl. 14.00. Þá eru nákvæmlega 24 dagar í frumsýningu, en hún verður 4. ágúst. Miðasalan mun fyrst um sinn fara fram á netinu og er hægt að nálgast upplýsingar á www.kabarett.is, www.senan.is, www.opera.is og www.midi.is. Miðasalan í Íslensku óperunni opnar þann 26. júlí 2005.
Meira...

Senurnar kvikna...
19. júní 2005
Það er komið sumarfrí í æfingum okkar á kabarett. 4 vikur eru búnar, nú fáum við tvær í frí og svo kýlum við verkið upp frá 4. júlí og frumsýnum 4. ágúst.
Meira...

Æfingar hafnar á Kabarett
Fimmtudagur 26.05.2005
Leikhópurinn Á senunni er byrjaður að æfa söngleikinn Kabarett eftir Masteroff, Ebb og Kander í þýðingu Veturliða Guðnasonar. Fyrsti samlestur var í gær, fimmtudaginn 19. maí. Frumsýnt verður í Íslensku óperunni þann 4. ágúst 2005.
Meira...


Kabarettfréttir...
Þriðjudagurinn 26. apríl 2005
Leikhópurinn Á senunni er á fullu að undirbúa hina stóru sýningu haustsins, Kabarett.  Nú er nákvæmlega mánuður þar til æfingar eiga að hefjast en frumsýning er áætluð þann 4. ágúst hjá Íslensku óperunni í Gamla bíói.  Það er spenna í loftinu og það er ekki spurning um að menn eru orðnir óþreyjufullir að byrja!  Hópurinn verður formlega tilkynntur innan tíðar en við getum samt ekki stillt okkur um að leka nýjustu fréttinni.  Núna í vikunni var nefnilega gengið frá ráðningu tveggja stórleikara til verkefnisins.  Það eru þau Edda Þórarinsdóttir og Borgar Garðarsson.  Edda mun leika Fraulein Schneider og Borgar kemur sérstaklega frá Finnlandi til að vera með okkur og leika Herr Schultz.  Þetta er mjög gleðilegt og mun styrkja sýninguna mikið.  Þess má líka geta að Edda lék Sally Bowles í upprunalegu sýningunni á Kabarett í Þjóðleikhúsinu!


Fylgist með!  Nánari fréttir af Kabarett koma á næstu vikum.

Sumarið á næsta leiti í London og leiðin liggur heim...
Miðvikudagurinn 6. apríl 2005
By the Bog of Cats, Don Carlos, Chitty Chitty Bang Bang, Hotel Rwanda og Kinsey eru umfjöllunarefnið í síðasta Londonpistlinum að sinni.
Pistill númer 4 frá London

Síðasta sýning á Svikum n.k. laugardag!
Miðvikudagur 6. apríl 2005
Missið ekki af umtöluðstu sýningunni um þessar mundir!

Blogg eða ekki blogg......
Miðvikudagur, 16.mars 2005
Af leiksýningunum A Man and A Boy eftir Terence Rattigan, A Minute Too Late með Complicite og Tropicana með leikhópnum Shunt frá LONDON.
Pistill númer 3 frá London

Veikindi settu strik í reikninginn!
Mánudagur, 14. febrúar 2005
Veikindi urðu til þess að fyrstu sýningu Hilmis Snæs í Svikum á sunnudaginn varð að aflýsa. Nú verður fyrsta sýning hans í hlutverki
Jerry sunnudaginn 20. febrúar. Þeim sem áttu miða á sýninguna er bent á að hafa samband við miðasölu Borgarleikhússins í síma 568 8000. Svik er kröftugt verk eftir meistarann Harold Pinter. Meira um sýninguna hér...

Hilmir Snær í Svikum n.k. sunnudag....
Föstudagur, 11. febrúar 2005
Hilmir Snær hefur nú tekið við hlutverki Felixar, Jerry í Svikum sem sýnt er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Full ástæða til að sjá verkið aftur....Næstu sýningar

 

London pistillinn....
Föstudagur, 11.febrúar 2005
Í þessum pistli ætlaði ég aðeins að fjalla um Mary Poppins, The Producers, stand-up klúbbinn Comedy Camp og kvikmyndina Bad Education e. Almodovar.
Pistill númer 2 frá London

Eldri fréttir...