Senda tölvupóst!
 

London, 4. pistill

Kveðjustund

Þetta er skrifað í flugvélinni á leið heim til Íslands. Dvöl minni í London er lokið í bili. Ég kveð borgina með hlýju í hjarta, þar líður mér alltaf vel. Það er samt svo gott að vita af henni svona nálægt. Ef örlögin grípa ekki óvænt í taumana á ég eftir að koma þangað oft á næstu árum og helst dvelja lengi. Sumarið hefur verið að kræla á sér en Bretinn er nú samt alveg með það á hreinu að það eigi eftir að koma “kuldaskot.” Við mörlandar könnumst ágætlega við þau (sérstaklega í júlí..) Eins og ég skrifaði aðeins um síðast eru kosningar í nánd og Gordon Brown var að koma með sitt innlegg í þá baráttu, fjárlagafrumvarpið. Þar eru blikur á lofti í listinni, enda listamenn einstaklega slappir þegar þarf að berjast fyrir eðlilegum fjárframlögum. Kosningafrumvörp eru alltaf ætluð til að ná til kjósenda og eins og við vitum er kjósendum alveg sama um listirnar... eða hvað? Frumvarpið gerir ráð fyrir að frysta framlög til lista næstu 4 árin. Það þýðir í raun lækkun og hefur British Arts Council þurft að hætta að styrkja þónokkuð margar menningarstofnanir. Um þetta hefur skapast nokkur umræða í fjölmiðlum en hún hefur farið heldur lágt. Listamenn mótmæla ekki, þeir þiggja bara og þegja. Ég held að hluti af þessari þögn tengist því að Verkamannaflokkurinn kom nokkuð til móts við listirnar til að byrja með og því hefur staðan verið skárri undanfarin ár. Listamenn eru því ekki komnir út í horn eins og þeir voru undir Íhaldsmönnunum, sem sveltu listirnar og vildu setja þær algjörlega í hendur einkaaðila, svipað og í Bandaríkjunum. Það gladdi mig að vísu að sjá að Young Vic leikhúsið heldur áfram að fá hækkuð framlög. Fyrsta hugsun mín var að sjálfsögðu að tengja það öflugu starfi Sjálfstæðra leikhúsa á Íslandi! Það var Young Vic sem nældi í hina einstaklega flottu sýningu Vesturports og LR, Rómeó og Júlíu. Þess má geta að ég var að heyra því hvíslað að heimsfrægur ástralskur listamaður ætlaði að koma að Votsjek, sýningunni sem Gísli Örn væri að vinna í núna... og ég er ekki að tala um Kylie Minogue, heldur mann sem hún söng dúett með. Segi ekki meira. Þið spyrjið bara Gísla Örn ef þið hittið hann.

En nóg um það. Í þessum pistli kennir margra grasa. Í dag koma fyrir líffræðingar með sérstakan áhuga á flugum og kynlífi, eldgamalt þýskt leikrit um kónga á Spáni, Hollywoodleikkona sem ætti að halda sig í Hollywood, fljúgandi bíll með tengingu við James Bond og hryllingssaga sem því miður hefur fengið yfirhalningu frá vinum Hollywoodleikkonunnar. En byrjum á byrjuninni.

By the Bog of Cats er írskt leikrit eftir Marinu Carr. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að sjá það í London var einfaldlega sú að nýlega var verkið frumsýnt í Þjóðleikhúsinu heima í leikstjórn Eddu Heiðrúnar og mér finnst svo gaman að gera samanburð. Á íslensku heitir þetta prýðilega spennandi verk Mýrarljós. Sýningin á West End fékk mjög misjafna dóma og það var ekki skrýtið. Aðalhlutverkið er leikið af hinni ágætu en mistæku leikkonu, Holly Hunter. Hún hefur verið frábær í einstökum bíómyndum (Piano t.d.) en þarna á sviðinu í London var hún algjörlega á röngum stað í tilverunni. Maður hafði á tilfinningunni að þarna væri frekar verið að leita að “leiksigri” frekar en að vinna bara rulluna af alúð. HH rúllaði um sviðið eins og villiköttur, grenjandi og mjálmandi á víxl. Hlutverk hennar er að vísu hlutverk utangarðsmannsins. Hún átti ekki að vera í almennilegri harmoníu við hina í leikhópnum en því miður er gjáin alltof breið. Hún nær heldur engum tengslum við litlu stúlkuna sem leikur dótturina og ástríðufullt sambandið við fyrrverandi eiginmanninn er óskaplega væmið og hreyfði lítið við mér. Leikhópurinn var að mestu leyti frábær, traustir írskir leikarar, en óhemjugangurinn í Holly og afleitur írskur hreimurinn ollu mér vanlíðan. Mjög leitt. Ég sá alveg fyrir mér að þetta hefði getað heppnast. Kannski með traustari leikstjórn. Kannski ef Edda Heiðrún hefði fengið að gera sýninguna í London... kannski... Nú hlakka ég til að sjá Halldóru Björns reyna sig við sama hlutverk. Get ekki beðið.

Og þá að mun eftirminnilegri reynslu. Ég er sérstakur aðdáandi Derek Jacobi og fékk algjört kikk út úr því þegar ég sá hann fara með lokaorðin í margnefndri Rómeó og Júlíu Vesturports (sjá pistil 1 og meðfylgjandi mynd!!). Það gladdi mig því mikið að sjá að hann væri að leika á West End í nýlegri uppsetningu frá Sheffield á klassísku verki Friedrichs Schillers, Don Carlos. Og þvílíkt sælgæti! Mér finnast períódu drama oft á tíðum ansi leiðinleg og orðavaðallinn getur alveg ært mann en þarna var því alls ekki að heilsa. Verkið er frábært og á mikið erindi við nútímann, enda verið að fjalla um eilíf gildi, frelsi einstaklingsins, hroka valdsins, dóm sögunnar. Sviðsmyndin, lýsingin, hljóðmyndin og búningarnir í Gielgud leikhúsinu var allt eins og best verður á kosið. Sviðsetningin sjálf klassísk og hrikalega flott. Leikstjóri er Michael Grandage. Senuskiptingar eins og smurðar og algjörlega án tilgerðar. Þegar dómarinn úr Rannsóknarréttinum spænska birtist í lok verksins, fór hrollur um áhorfendur. Ég var með öndina í hálsinum allan tímann og tók ekkert eftir því að ég var að kafna úr hita þar sem ég sat efst uppi í rjáfri (fékk ekki betri miða..) Jacobi brást mér ekki. Leikurinn var hófstilltur en samt svo réttur! Það er eins og þessi leikari hafi einhverja næmni sem ég sé hvergi annarsstaðar. Og leikhópurinn allur var frábær. Richard Coyle lék Don Carlos og Claire Price lék drottninguna ungu, Elísabetu. Þau gáfu DJ ekkert eftir. Útkoman var nammi leikhús sem ég hvet alla til að sjá. Svona á að endurnýja klassíkina. Virðing fyrir viðfangsefninu var algjör, hæfni til að koma því til skila óumdeilanleg. Don Carlos verður eitthvað áfram á fjölunum í London.

Þriðja leiksýningin sem ég sá var endurgerð á kvikmyndinni Chitty Chitty Bang Bang. Höfundurinn er Ian Flemming, sami gaur og skrifaði James Bond. Flemming skrifaði Chitty upprunalega fyrir son sinn en kvikmyndin sem var gerð tryggði sögunni sess í hugum fólks. Chitty er óttalega þunnur þrettándi, svipað og Mary Poppins (sjá pistil 2) og ótrúlegt að sjá Breta stöðugt vera að velta sér upp úr asnalegum Þjóðverja eftirlíkingum og segja börnunum sínum að allt slæmt komi að utan. Sérstaklega frá Evrópu. Óvinaríkið heitir Vulgeria. Hinsvegar er sýningin flott og trixin sem bíllinn var látinn gera voru algjörlega brilljant. Mér fannst samt svolítil synd að eyða öllum þessum peningum og allri þessari orku í ekki merkilegra verk. Þetta er söngleikur með einu lagi og er það endurtekið aftur og aftur og aftur og aftzzzzz... En ég fór með krakkana mína og ömmu þeirra og þau skemmtu sér vel. I rest my case.

Og þá er það bíóið. Fyrst – Hotel Rwanda. Þessi mynd hefur náð alþjóðlegri dreifingu, fyrst og fremst fyrir umfjöllunarefnið. Það hjálpar líka að heimsfrægir leikarar koma við sögu í litlum hlutverkum og að leikararnir í aðalhlutverkunum Don Cheadle og Sophie Okonedo eru frábær. Sagan segir frá framkvæmdastjóra á lúxushóteli í Rwanda sem þarf að horfast í augu við þjóðarhreinsanir Hútúa, sem drápu 800 þúsund Tútsa án þess að alþjóðasamfélagið hreyfði hönd né fót. Hann situr uppi með fjölda flóttamanna á hótelinu og tekst með ótrúlegum hætti og hjálp Sameinuðu þjóðanna að bjarga stórum hópum. Áherslan er á sanna sögu þessa hugrakka manns og fjölskyldu hans, bakgrunnurinn er viðbjóðurinn sem við hin létum yfir þetta vesalings fólk ganga. Hér er skrýtin mynd á ferð. Ég var mjög þakklátur fyrir hana. Ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir því sem þarna hafði gengið á. Maður skammaðist sín óneitanlega fyrir vanhæfni vestrænna leiðtoga til að kippa í taumana. Margt í myndinni var mjög vel gert og sem betur fer var ofbeldið aldrei upphafið. Leikurinn var líka ágætur. Hinsvegar var það þessi Hollywood-áhersla á einstaklinginn og hugrekki hans sem fór að fara pínulítið í pirrurnar á mér. Mikið líkar mér betur stíllinn hans Mike Leigh. Þarna komu allar ræðurnar sem eru svo óeðlilegar í framleiðslunni frá BNA (sjá pistil 1), eiginkonan mænir aðdáunarfull á eiginmanninn og segir nokkrum sinnum í myndinni: “Paul, you are a good man!” með mismunandi áherslum. Prófið sjálf með maka ykkar og sjáið hvort þetta eru eðlileg samskipti. Kvikmyndin sjálf fékk ekki að segja söguna (sbr. Mike Leigh) heldur var okkur SAGT ALLT! Það þurfti ekki að segja mér að fólk væri að deyja eða að aðalhetjan væri ágætisgæi – ég sá það! En ég mæli með Hotel Rwanda. Við þurfum myndir sem þessar til að minna okkur á að það þarf að berjast gegn illskunni með öllum hugsanlegum ráðum. Hún mun vera að koma á kvikmyndahátíð í Reykjavík. Ekki missa af henni!!

Hin myndin sem ég sá minnir okkur líka á annarskonar illsku. Það er illskan sem felst í fáfræðinni, illska þeirra sem vilja stjórna hugsunum okkar, gerðum og tilfinningum. Kinsey er saga líffræðingsins Alfred Kinsey sem gerði stórmerkilega rannsóknir á kynlífshegðun Bandaríkjamanna um miðja síðustu öld. Rannsóknir hans hafa síðan verið deiluefni á milli frjálslyndra og íhaldssamra Ameríkana. Það er upp úr rannsóknum Kinsey sem menn hafa t.d. komist að þeirri niðurstöðu að 10% manna séu samkynhneigðir. Ekki uppáhaldsrannsókn íhaldsmanna heimsins!

Þetta er flott mynd, gerð af frjálslyndum listamönnum sem vilja halda niðurstöðum Kinsey á lofti á tímum Bush og kumpána. Mér finnst hún laus við hroka, segir bara söguna og gerir það vel. Liam Neason er frábær og Laura Linney og Chris O´Donnell gefa honum lítið eftir. Grunnþemað er einfalt. VIÐ ERUM ÖLL ÖÐRUVÍSI. Gæti ekki verið meira sammála. Ég hvet menn til að sjá Kinsey og kynna sér líf þessa merkilega manns.

Jæja, hættur í bili. Ég þakka þeim sem hafa nennt að lesa þetta rövl í mér en ég vona að þið viljið halda áfram að fylgjast með síðunni okkar og fá fréttir af leikhópnum Á senunni. Við opnum líka brátt nýja síðu á www.kabarett.is. Þar verður allt sem menn vilja vita um söngleikinn Kabarett sem er um það bil að fara í æfingu.

Kær kveðja, Felix