Svik, Mary Poppins, Comedy Camp og Almodovar...
London 10. febrúar 05
Jæja, þá er maður kominn aftur til London eftir stutt stopp heima á Íslandi. Mér fannst gott að koma heim. Ég dáist að kraftinum í íslenskum listamönnum og í íslensku samfélagi almennt. Allt er á fullu, hvort sem það er í leikhúsinu (óteljandi sýningar), tónlistinni (tónlistarverðlaunin), hjá unglingunum (Skrekkur), eða hátíðir eins og Vetrarhátíð (www.vetrarhatid.is). Við í leikhópnum Á senunni erum á fullu að undirbúa stóru sýninguna okkar, Kabarett. Þvílíkt verkefni! Ég hitti næstum allan hópinn á fundi og fékk gæsahúð. Fylgist með frá byrjun :) Fréttir munu birtast hér á heimasíðunni.
Heima lék ég líka mína síðustu sýningu á Svikum eftir Harold Pinter. Ég kvaddi samstarfsmennina með tárin í augunum, enda lífsreynslan búin að vera mér mjög mikils virði. Hilmir Snær er tekinn við hlutverkinu. Ég hvet ykkur til að fara og sjá Himma í Svikum. Hann er frábær leikari, algjör yfirburðamaður, og það er yndislegt að sjá hann glíma við þetta mjög flókna leikrit með þeim Ingvari og Hönsu. Mér fannst frábært að fá tækifæri til að reyna mig við Pinter og er mjög þakklátur Eddu Heiðrúnu og Balta fyrir að treysta mér fyrir þessu. Leikrit Pinters láta svo lítið yfir sér en undir niðri kraumar eitthvað sem er svo ósnertanlegt og fallegt. Ótrúlega flott stöff. Lesið um verkið hér á heimasíðunni.
Þegar ég tala um Pinter minnist ég viðtals sem ég las um daginn hér í Bretlandi við þá Simon McBurney og félaga hans í Theatre de Complicité. TdC er einhvert besta sjálfstætt starfandi leikhús í heiminum og komu t.d. til Íslands á Listahátíð 94 eða 96 með Street of Crocodiles. Ógleymanleg sýning. Þeir eru að snúa aftur með eina af sínum fyrstu sýningum, A Minute Too Late, og ætla að leika hana í breska Þjóðleikhúsinu. Stebbi Jóns skipaði mér að fara! Ég á miða 18. febrúar og get ekki beðið!! Í viðtalinu (sem ég var nógu vitlaus til að glata) tala þeir um hlutverk leikhússins og mér fannst sérstaklega athyglisvert hvernig McBurney upplifir sjónvarp og kvikmyndir sem frelsandi afl fyrir leikhúsið. Hann sér það amk alls ekki sem ógn. Nú þarf leikhúsið ekki lengur að segja sögurnar og leika sápuóperurnar sem við sjáum í sjónvarpinu! Leikhúsið getur fyrst og fremst verið vettvangur fyrir nýsköpun og nýjar leiðir til að segja sögur sem koma okkur við. Gæti ekki verið meira sammála! Þess má svo bæta við að annar af stærstu áhrifavöldum í leikhúsi nútímans, Pina Bausch, er með sýningu í London til 20. febrúar. Ég ætla að reyna að fara.
En aftur að því sem ég hef séð undanfarið! Í þessum pistli ætlaði ég aðeins að fjalla um Mary Poppins, The Producers, stand-up klúbbinn Comedy Camp og kvikmyndina Bad Education e. Almodovar. Ólíkari verk er varla hægt að velja!! En ég byrja á söngleikjunum því það er varla hægt að fara til London öðruvísi en að sjá nýjustu söngleikina og þessa dagana slást menn um miða á tvær sýningar, The Producers og Mary Poppins.
Producers er byggt á kvikmynd Mel Brooks og var frumsýnt á Brodway, þar sem sýningin varð algjör smellur. Hið sama er nú að gerast í London og er pakkuppselt á sýningar næstu mánuði. Ég hef ekki enn verið svo heppinn að ná mér í miða en Guðmundur sonur minn vill sjá hana og ætli við förum ekki í röðina þegar hann kemur í heimsókn! Verst er bara að missa af Nathan Lane, en hann lék í fyrstu sýningunum hér í London.
Ég var hins vegar svo heppinn að fá óvænt boð á Mary Poppins. Menn segja að sá söngleikur, sem beðið hefur verið í eftir svo árum skiptir, hafi kostað 9 milljónir punda (rúmur milljarður íkr) í uppsetningu en áður en dyrnar voru opnaðar voru þeir búnir að selja miða fyrir 12 milljónir punda (einn og hálfur milljarður íkr!) Ég veit ekki hvað er satt í þessu en ég veit að ef maður vill miða um helgi verður maður að bóka miða í september!! Það er skemmst frá því að segja að MP er dæmigerður West End söngleikur, mjög vel gerður, frábærlega sunginn, snilldarlega dansaður og ágætlega leikinn. Þess má geta að “Íslandsvinurinn” Anthony Drewe vinnur nýja tónlist inn í sýninguna ásamt félaga sínum George Styles. Þeir skrifuðu söngleikinn Honk! á sínum tíma. Sú sýning fór upp á vegum Leikfélags Reykjavíkur árið 2002 og Anthony Drewe kom til Íslands á frumsýningu í Borgarleikhúsinu. Ákaflega geðugur maður. En aftur að MP. Tæknin í sýningunni er nýtt á máta sem maður hefur ekki séð áður og raunar er svo mikið treyst á tæknina að það varð hátt í klukkutíma töf þegar eitthvað í systeminu klikkaði! Mary Poppins flýgur um sviðið og Bert gengur upp veggi og loft eins og ekkert sé. Ótrúlega flott. Hinsvegar var það nú svolítið þannig að áhorfendur voru að klappa meira fyrir tækninni heldur en leikurum eða sögunni. Sagan er óneitanlega barn síns tíma og er sannast sagna ekki mjög merkileg. Það er athyglisvert hvað Bretunum finnst hún skemmtileg þessi skrýtna saga um barnapíu sem hættir að ala upp börnin og fer frekar í foreldrana. Þetta er allt mjög í anda Viktoríu drottningar – lesist: ótrúlega gamaldags! Ég efast um að kvenfrelsispostular verði yfir sig hrifnir! En leikur, söngur og sviðssetning er hrikalega flott. Dansarnir eru kapítuli útaf fyrir sig, enda Matthew Bourne á ferðinni. Sá rekur dansflokkinn Adventures In Motion Pictures og mæli ég sérstaklega með Svanavatninu sem hann setti upp og gekk ótrúlega. Þetta er flottasta dansútfærsla sem ég hef séð í söngleik fyrr og síðar og gerir það að verkum að það er þess virði að sjá sýninguna.
Þegar maður kemur til London er líka vel þess virði að skella sér á gott stand-up. Við Baldur förum stundum á klúbb sem heitir Comedy Camp og er alltaf á þriðjudagskvöldum á Bar Code í Soho. Stemmningin er mjög “local” og skemmtileg. Stundum eru grínistarnir góðir, stundum slæmir en það skiptir ekki máli. Upplifunin er allt. Yfirleitt koma fram 3-4 grínistar, auk kynnisins. Stand-up er hrikalega erfitt form en Bretarnir eru sérfræðingar enda erfitt að finna þjóð sem getur betur hæðst að sjálfri sér. Það er ekkert heilagt í þessum klúbbi og maður sýpur hveljur yfir því sem á gengur. Og svo hlær maður þangað til mann fer að verkja í vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Mæli eindregið með. Aðra klúbba má finna í Time Out. Þar er líka gott að elta það sem þeir mæla með.
Að lokum vil ég fjalla um nýjustu mynd Pedro Almodovar, Bad Education, sem ég sá í Prince Charles leikhúsinu á Leicester Square. Ég er mikill aðdáandi frá því að það var sérstök áhersla á myndir Almodovars á kvikmyndahátíð fyrir nokkrum árum. Bad Education olli mér ekki vonbrigðum og meistarinn fer á kostum, þar sem skipt er á milli “raunveruleika” og “leikinna” atriða. Mjög ruglingslegt til að byrja með en verður svo alltaf betra og betra. Leikurinn er ótrúlega flottur og tæknin við að segja söguna er frábær. Mér finnst alltaf svo gaman að velta því fyrir mér hvernig Almodovar notar formið. Hann náði ákveðnum toppi í All About My Mother og heldur ótrauður áfram á sömu braut í þessari nýju mynd. Hér eru allt sem maður býst við af honum, sterkir litir, mikið drama, dópistar, mellur og kynskiptingar, fegurð, ljótleiki, kynlíf, erótík og falleg tónlist, að ekki sé talað um leikinn, sem er alltaf góður í kvikmyndum hans. Sagan segir að hann hafi lent illilega upp á kant við aðalleikarann. Það kemur kannski ekki á óvart en merki þess er ekki að finna í myndinni. Ég mæli eindregið með myndum PA og Bad Education veldur aðdáendum örugglega ekki vonbrigðum.
Meira þegar ég hef frá einhverju að segja.
Kveðja, Felix