Um gamla leikhúsið og það nýjasta!...
London 16. mars 2005
Jahérna, ekki gæti ég verið bloggari! Hvernig finna menn tíma í að vera skrifa um líf sitt í tíma og ótíma?? Ég er búinn að vera á leið með þennan þriðja pistil minn um London og leikhúsið í rúman mánuð en ekki átt möguleika sökum anna. En hér kemur þetta samt, farið að slá í sumt en það verður bara að hafa það.
Vorið virðist vera að láta á sér kræla í Bretlandi. Hér hefur verið þetta 8-12 stiga hiti undanfarið, lítil sól en ekki mikil rigning heldur. Mikill munur eftir skítakuldann heima á Íslandi undanfarnar vikur! Borgin iðar. Mannlífið er ótrúlega fjölbreytt. Hér hlakka menn til konunglegrar hjónavígslu (NB ekki brúðkaups!) og svo ætlar Tony Blair að láta kjósa sig aftur til forystu á vorinu. Helvítið hann Michael Howard er nú samt farinn að sækja ansi mikið á! Það væri hryllingur ef sá afturhaldsseggur og hræsnari kæmist til valda. Bresk pólitík er náttúrulega efni í leikhúspistil útaf fyrir sig. Hún er svo dramantísk og oftast miklu meiri leikur en alvara. Það er hrikalega gaman að fylgjast með umræðunni í blöðunum og í sjónvarpinu. Helst hefur maður áhyggjur af fundamentalistum, hvort sem þeir tilheyra samfélagi kristinna, múslima, shíka eða hvaða hóps sem hægt er að ímynda sér. Svo er farið að bera á miklu útlendingahatri og það er hryllingur að sjá stjórnmálamennina stökkva upp í þann strætó í leit að ódýrum atkvæðum. Fyrrnefndur Michael Howard, forystumaður íhaldsmanna, er sjálfur afkomandi ólöglegra innflytjenda í Bretlandi. Hann ætti síðastur manna að ráðast á manneskjur sem eru einfaldlega að leita að betra lífi fyrir sig og sína. Hann er kominn með sama kosningastjóra og íhaldsmenn hafa notað í Ástralíu! Ekkert nema hræðsluáróður, terroristar og innflytjendur! Og nú er hann farinn að láta kosningarnar snúast um fóstureyðingar til að reyna að ná í atkvæði trúaða liðsins. Er það bara ég eða er þetta farið að minna óþægilega á öfgamennina sem stjórna BNA? Ömurlegur málflutningur. En nóg um pólitík, ég ætlaði að tala um leiklistina sem ég hef verið að upplifa í leikhúsum og bíó.
Í þessum pistli er ég aðallega að fjalla um leikhús, enda hef ég séð þrjár mjög ólíkar sýningar undanfarið. Ég vil þó skjóta því að hér að við sáum hina frábæru frönsku bíómynd A Very Lond Engagement eftir Jean-Pierre Jeunet höfund Amalie. Audrey Tautou sem lék einmitt Amalie leikur hér aftur aðalhlutverkið. Þessi kvikmynd var í bíó heima og ég hvet alla til að sjá! Algjört listaverk, rómantísk, upphafin, falleg og brjálæðislega dramantísk. Það eru ákveðnar myndir sem límdu sig á heilann á mér og koma upp aftur og aftur. Myndin var stundum meira eins og málverk en bíómynd. Það voru líka vísanir í stórar bíómyndir gullaldarinnar í frönsku bíói, myndir eins og Enfant du Paradis. Ég er búinn að sjá tvær aðrar sem ég ætla að fjalla um næst, Hotel Rwanda og Kinsey.
Ég ætla að fjalla um þrjár leiksýningar sem koma frá mjög mismunandi tímabilum í breskri leiklistarsögu. Sú fyrsta er A Man and A Boy eftir Terence Rattigan, næst kemur A Minute Too Late með Complicite og svo er það splunkuný sýning með hópi sem heitir Shunt. Sýningin heitir Tropicana.
A Man and A Boy er sannarlega eftir einn af snillingum breskrar leikritunar. Terence Rattigan fæddist árið 1911. Hann byrjaði að skrifa leikrit fyrir hvatningu vinar síns Sir John Gielgud og varð fljótt eitt vinsælasta skáldið á West End. Sló fyrst í gegn árið 1936. Á þeim tíma þegar hann var að skrifa voru leikverk ritskoðuð í Englandi og því allt í leikritum meira og minna undir rós. Yngri kynslóðin í breska leikhúsinu (Pinter, Osbourne) hötuðu leikrit Rattigan og hann gerði sér grein fyrir að þegar Horfðu reiður um öxl kom út var hans tími liðinn. Rattigan var hommi og það er vel falið inni í verkum hans, þau hafa mörg hver vísanir í þá átt. A Man and A Boy, sem er ekki skrifað fyrr en á sjöunda áratugnum, hefur ofboðslega flott plott sem hommi, falinn fyrir samfélaginu, hefði bara getað skrifað. Verkið er sannarlega ekki án galla, það verður tilfinningavella í seinni hlutanum en fyrri hlutinn var þannig að maður fór í hléið með gæsahúð! Það fjallar um samskipti föður og sonar. Faðirinn er viðskiptajöfur sem er að missa veldi sitt. Í örvæntingafullri tilraun til að bjarga málum lætur hann líta svo út gagnvart valdamiklum en samkynhneigðum viðskiptafélaga að hann sé sjálfur hommi og til að fullkomna glæpinn lætur hann líta út sem sonur hans sé ástmaður sinn. Hann “selur” síðan son sinn óbeint í hendur viðskiptafélagans. Sonurinn er algjörlega miður sín vegna svika föður síns en á sama tíma vill hann hjálpa, honum er svo mikið í mun að ganga í augu hans. Úr þessu verður rosalegt drama á meðan allt fellur eins og spilaborg, sambandið því miður verður aðeins of tilfinningaþrungið og væmið í seinni hlutanum. David Suchet (Poirot í sjónvarpinu) leikur pabbann með slíkum bravúr að það var unun á að horfa. Þvílíkur leikari!! Uppsetningin öll er frábær en fyrst og fremst er bara svo gaman að sjá svona “well made play” eins og Bretinn myndi kalla það. Ég hvet menn til að kynna sér verk Terence Rattigan. Það ætla ég sjálfur að gera.
A Minute Too Late er sýningin sem Stebbi Jóns skipaði mér að sjá. Þetta er ein af eldri sýningum Theatre de Complicite og hefur gengið fyrir fullu húsi í breska Þjóðleikhúsinu. Ég var mjög spenntur, enda aðdáandi Complicité eftir Street of Crocodiles sem ég sá á Listahátíð í Reykjavík og Stólana sem ég sá hér í London. En ég varð fyrir vonbrigðum. A Minute Too Late var örugglega mjög spennandi og ný þegar hún var frumsýnd árið 1984 en því miður hefur hún ekki elst mjög vel. Það er svolítið eins og leikstíllinn, sem óneitanlega hefur haft áhrif í leikhúsi heimsins, hafi verið ofnotaður á undanförnum árum og því voru áhrifin frekar þannig að mér fannst þetta allt frekar tilgerðarlegt. Verkið fjallar um dauðann og var um margt falleg en samt ekki alveg... Kannski hafði ég bara einfaldlega of miklar væntingar. Verkið er leikið af upprunalegu meðlimum Complicite, Simon McBurney, Marcello Magni og Jozef Houben. Ég bendi á frábæra heimasíðu Complicite, www.complicite.com
Þriðja sýningin sem ég sá er frekar “leikhúsupplifun” en nokkuð annað. Hún er líka “ferskust” ef hægt er að nota það orð um leikhús. Ég hafði í þetta sinn engar væntingar en á ný var það Stebbi minn sem skipaði mér að fara. Ég ætlaði hvort eð er þar sem þetta voru kunnuglegar slóðir. Shunt er nefnilega ungt kompaní og byggt upp af krökkum sem voru með mér hér í framhaldsnámi í Central School of Speech and Drama árin 97-98. Ég þekki því hópinn vel, frábærir krakkar, miklir sveimhugar og stundum svolítið klikkuð og því hafði ég nokkrar efasemdir. En þær efasemdir hurfu fljótt því sýningin var algjört sælgæti. Þau leika í gömlum geymslum undir lestarteinum (London Bridge) og leikrýmið er stórt, drungalegt og æðislegt! Það var sífellt verið að koma manni á óvart, skynjunin var tekin í nýjar hæðir. Ég skemmti mér konunglega. Ég veit eiginlega ekki hvað Tropicana (en það heitir sýningin) var um en það skipti engu máli. Þetta var upplifun. Sirkus, leikhús, rokk, dans, modern art – súpa. Þetta var einhverskonar leit að hjartanu (í orðsins fyllstu merkingu!), leit að því sem gerir okkur að manneskjum eða dýrum, tilraun til að skilja það sem ekki er hægt að skilja. Fylgist með því sem þau eru að gera! Þau eru líka með frábæra heimasíðu. Kíkið á www.shunt.co.uk
Læt þetta nægja í bili. Næst er það Mýrarljós (By the Bog of Cats) með Holly Hunter og Don Carlos með Derek Jacobi, auk bíómyndanna Hotel Rwanda og Kinsey. Lofa að koma með það í næstu viku ? Svo þarf nú að fara að koma með meiri fréttir af Kabarett. Þar er allt á fullu í undirbúningi. Æfingar hefjast í maí og frumsýnt í ágúst! Jibbí, ég hlakka svo til!! Svo þurfið þið að drífa ykkur á SVIK í Borgarleikhúsinu. Sýningum fer fækkandi.
Kveðja úr sólinni í London
Kveðja, Felix