Landsbankinn og Sögur útgáfa kynna:
Felix Bergsson, Þögul nóttin – tónleikaferð um Ísland mars 2012
Felix Bergsson sendi nýlega frá sér sína fyrstu sólóplötu, Þögul nóttin. Platan vakti athygli, fékk fína dóma og seldist prýðilega fyrir jólin. Í tilefni af útgáfunni mun Felix halda nokkra tónleika í mars og apríl ásamt þeim Jóni Ólafssyni og Stefáni Má Magnússyni en þeir félagar unnu plötuna að öllu leyti með Felix. Nú þegar er ákveðið að tónleikar verði haldnir sunnudaginn 11. mars kl. 20.00 í Tónleikasal BRJÁN í Neskaupstað og föstudaginn 16. mars kl. 20.00 að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd.
Á tónleikunum munu þeir félagar flytja öll lögin af Þögulli nóttinni, auk annarra laga sem þeir hafa sent frá sér í gegnum tíðina eða langar einfaldlega til að syngja fyrir gesti. Miðaverð er 2000 krónur en viðskiptavinir Landsbankans fá 20% afslátt með framvísun kredit eða debitkorts.
Platan Þögul nóttin er eins og áður sagði fyrsta sólóplata Felix Bergssonar. Á plötunni eru 11 lög, þar af 9 sem aldrei hafa heyrst áður, eftir marga af helstu lagahöfundum þjóðarinnar. Öll ljóðin eru eftir Pál Ólafsson (f. 1827) en bók með ástarljóðum hans, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga, hefur náð gríðarlegum vinsældum. Lagahöfundar eru Jón Ólafsson, Magnús Þór Sigmundsson, Sveinbjörn Grétarsson, Tómas Hermannsson, Stefán Már Magnússon, Hörður Torfason og Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson. Platan var unnin af Felix Bergssyni og Jóni Ólafssyni í stúdíói Jóns, Eyranu. Jón útsetti alla tónlistina og stjórnaði upptökum. Hann spilar að auki öll hljómborð og píanó, auk þess að radda. Aðrir sem koma að plötunni eru þúsundþjalasmiðurinn Stefán Már Magnússon sem spilar trommur, áslátt, gítara, bassa og munnhörpu, Snorri Sigurðarson trompetleikari og söngkonurnar Valgerður Guðnadóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir. Addi 800 sá um hljóðblöndun og Finnur Hákonarson masteraði. Útgefandi er Sögur útgáfa.
Platan hefur fengið frábæra dóma. Andrea Jónsdóttir á Rás 2 fór um hana lofsamlegum orðum og gaf henni 8,7 af 10 mögulegum.
Gestur Baldursson hjá Fréttatímanum gaf Þögulli nóttinni 4 stjörnur og sagði í gagnrýni sinni:
„Alúð, natni og mýkt
Jón Ólafsson, Magnús Þór Sigmundsson, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og fleiri höfundar semja hér lög við ljóð Páls Ólafssonar. Hörður Torfason reimar á sig tangóskóna við ljóðið Án þín og Sveinbjörn Grétarsson pakkar Vorljóði í léttar Greifa-umbúðir. Fagmannlega er staðið að útsetningum, hljóðfæraleik, röddun og söng og er þessi diskur rós í hnappagat Felix og allra annarra sem að verkinu komu. Lífsbarátta 19. aldar, ástin og óður til náttúrunnar einkennir ljóð Páls og passar lágstemmd tónlistin yrkisefninu fullkomlega. Flutningur Felix og söngkvennanna Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur og Valgerðar Guðnadóttur er til mikillar fyrirmyndar og farið er með viðfangsefnið af stakri virðingu, alúð, natni og mýkt. Bravó Felix, bravó!“