Næturljóð komið í spilun

Nýtt lag frá Felix Bergssyni var frumflutt í Popplandinu á Rás 2 í dag.  Lagið heitir Næturljóð og er eftir Jón Ólafsson en textinn er eftir Felix.  Hildur Vala syngur með í laginu.  Næturljóð verður á nýrri hljómplötu Felix sem vonandi lítur dagsins ljós á vordögum.

Ljóðið varð til í London eitthvað síðsumarkvöldið.  Höfundur var læstur úti heima hjá sér og beið í sumarkyrrð stórborgarinnar eftir manninum sínum.  Ljóðið lýsir þeirri hamingjutilfinningu sem ástin og stórborgin veittu höfundi þessa stuttu kvöldstund.

Næturljóð verður á nýrri 10 laga plötu sem enn hefur ekki hlotið nafn en kemur út síðar á árinu.  Lagahöfundar eru Jón Ólafsson, Ottó Tynes, Eberg, Karl Olgeirsson, Sigurður Örn Jónsson og Dr. Gunni en Felix semur flesta texta utan tvo sem eru eftir Dr. Gunna og Bjartmar Guðlaugsson.   Jón Ólafsson stjórnar upptökum í Eyranu og spilar á öll hljómborð og píanó, auk þess sem hann raddar og forritar trommuheila.  Stefán Már Magnússon spilar á gítar og bassa, Bassi Ólafsson trommar og Hildur Vala syngur með í Næturljóðinu.  Addi 800 mixaði plötuna.

Næturljóð

hlust‘ á borgarhljóð

fögur næturljóð

ég bíð og vaki eftir þér

 

næturkulið svalt

sækir að en allt

er gott – ég doka eftir þér

 

ég elska þessa borg

næstum eins og þig

í öngþveitinu loks við fundum frið

 

:Komdu til mín – komdu fljótt

ég þrái þig og þessa nótt

leyfðu mér að hlýja þér

alltaf vil ég vera hér:

 

Í gegnum næturklið

tímans þunga nið

ég finn að senn er von á þér…