LEIKLIST - Leikhópurinn Á senunni: Í fremstu röð KABARETT

Höfundur handrits: Joe Masteroff. Höfundur tónlistar: John Kander. Höfundur söngtexta: Fred Ebb. Þýðandi: Veturliði Guðnason. Leikstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir. Tónlistarstjóri: Karl O. Olgeirsson. Höfundar útsetninga: Karl O. Olgeirsson og Samúel Samúelsson. Leikmyndarhönnuður: Snorri Freyr Hilmarsson. Ljósameistari: Jóhann Bjarni Pálmason. Danshöfundur: Margrét Sara Guðjónsdóttir. Búningahönnuður: Hildur Hafstein. Leikgervahönnuður: Kolfinna Knútsdóttir. Hljóðhönnuður: Ívar Ragnarsson. Hljóðfæraleikarar: Karl O. Olgeirsson (píanó og harmónika), Matthías Stefánsson (fiðla og banjó), Samúel Samúelsson (básúna), Sigtryggur Baldursson (slagverk), Sigurður Flosason (saxófónn og klarinett) og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson (kontrabassi). Söngrödd í upptöku: Ísak Ríkharðsson. Leikarar, söngvarar og dansarar: Birna Hafstein, Borgar Garðarsson, Edda Þórarinsdóttir, Felix Bergsson, Guðjón Davíð Karlsson, Inga Stefánsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Kristjana Skúladóttir, Magnús Jónsson, Orri Huginn Ágústsson, Soffía Karlsdóttir, Vigdís Gunnarsdóttir og Þórunn Lárusdóttir. Fimmtudagur 4. ágúst.

ÞAÐ kemur ekki á óvart hve söngleikurinn Kabarett hefur orðið lífseigur, jafnt texti sem tónlist verða uppspretta ljúfsárra hugrenninga um suðupottinn í Berlín millistríðsáranna rétt í þann mund sem nasistar eru að hrifsa til sín öll völd. Það er greinilegt í þessari uppfærslu Kolbrúnar Halldórsdóttur og félaga að það er ekki síst pólitísk skírskotun verksins sem hrífur þau og þeir sjaldgæfu möguleikar sem hér gefast á að skila fullburða söngleikjasýningu í leik, söng og dansi meðfram því að benda á algild sannindi um hættuna á því að græðgi og fordómar móti framtíð heils samfélags. Aðalpersónur verksins, söguþráður og lýsing á umhverfi eru sprottin úr skáldsögu og sagnasafni Christophers Isherwood, ensks rithöfundar sem bjó í Berlín um nokkurra ára skeið uns hann neyddist til að yfirgefa borgina við valdatöku nasista þar sem hann áleit sér þar ekki vært enda samkynhneigður vinstrimaður. Upp úr sögunum samdi John Van Druten leikrit sem var svo kvikmyndað. Allir þættir verksins tóku nokkrum breytingum í höndum hans og áttu eftir að ummyndast enn frekar í söngleikjahandriti Masteroffs og enn nýrri kvikmyndaútgáfu Jay Presson Allens sem leikstýrt var af Bob Fosse og frumsýnd 1972. Síðari útgáfur söngleiksins innihéldu svo t.d. lög sem Kander og Ebb höfðu samið sérstaklega fyrir þá kvikmynd. Sem dæmi um ólíkar áherslur má taka kynhneigð karlkyns aðalpersónunnar sem hefur verið allt frá því að vera að því er virðist kynhvatarlaus, algjörlega samkynhneigð, gersamlega gagnkynhneigð eða einhvers staðar mitt á milli í hinum ýmsu útgáfum. Í sýningunni hér er tekið mið af leikgerð Sams Mendes sem hann setti upp í London og New York við frábæran orðstír fyrir nokkrum árum hvað þetta varðar. Það er ekki hægt að hugsa sér betri vettvang fyrir þessa sýningu en þetta elsta kvikmyndahús okkar sem nú hýsir Íslensku óperuna. Þó að þröngt sé á sviðinu hefur Snorra Frey Hilmarssyni tekist að koma fyrir Kit-Kat-klúbbnum í öllum mögulegum birtingarformum auk leiguhjallsins margfræga. Laslegur salurinn myndar viðeigandi umgjörð. Jóhann Bjarni Pálmason kann meistaralega að lýsa útsjónarsamlega leikmyndina í þessu litla rými. Kosturinn við þrengslin er að sjö manna dansflokkur fyllir út í sviðið og verður að segjast að Margréti Söru Guðjónsdóttur tekst alltaf að finna óvæntar danshreyfingar sem hæfa jafnt dönsurunum og því svigrúmi sem þeim gefst. Samhæfingin er með ágætum enda dansarnir greinilega vel æfðir. Búningar Hildar Hafstein eru í stílfærðri tísku þriðja áratugar aldarinnar, fjölbreyttir og litríkir og skapa oft áhrifamikla heild eins og t.d. búningar tildursmeyja í trúlofunarveislunni. Gervi Kolfinnu Knútsdóttur eru að sama skapi litrík, hárkollur jafnvel á hárkollur ofan og allt í stíl og oftast vel við hæfi. Stjarna sýningarinnar er eins og við má búast Þórunn Lárusdóttir í hlutverki Sally Bowles. Söngur hennar er í einu orði sagt stórfenglegur en Þórunn gleymir aldrei að sýna í hverju lagi hvernig liggur á Sally og er jafnvíg á viðkvæmni hins sjálfumhverfa og grunnhyggið tillitsleysi í garð annarra í leiknum.

1/2 Næsta síða...

 
     

Til baka...