Felix Bergsson skilar mjög fagmannlega bæði leik og söng. Ankannaleg hárkollan undirstrikar sakleysi persónunnar sem hæfir vel því atburðirnir sem lýst er í verkinu opinbera fyrir henni miskunnarleysi heimsins. Magnús Jónsson leikur kabarettkynninn á mjög sérstakan en áhrifamikinn hátt og það á ekki síst við hvað túlkun hans í söng varðar. Persónan er hér sýnd sem fulltrúi illskunnar jafnt sem fórnarlamb hennar og minnir áhorfendur stöðugt á alvarlegan undirtón verksins. Borgar Garðarsson og Edda Þórarinsdóttir fara með hlutverk skötuhjúanna Herr Schultz og Fraulein Schneider. Borgar er sjaldséður á íslensku leiksviði og langt er síðan hann hefur komið fram í sönghlutverki hér. Það sem á vantar í söng bætir hann upp með óbilandi sjarma. Edda skilar viðamiklu hlutverki með sóma, jafnt í leik sem söng, og bregður upp skýrri mynd af konu sem er vönd að virðingu sinni og heldur velli hvað sem á dynur. Það sópaði að Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur hvenær sem hún skaut upp kollinum á sviðinu og söngur hennar var fyrirtaksgóður. Inga Stefánsdóttir spreytti sig á tilfinningaríkum söng á þýsku í stuttu en eftirminnilegu atriði með aldeilis frábærum árangri. Það vantaði töluvert upp á ógnina hjá Jóhannesi Hauki Jóhannessyni í hlutverki Ernst Ludwig en Orri Huginn Ágústsson skipti gersamlega um ham eftir því hvaða hlutverki hann gegndi. Guðjón Davíð Karlsson skilaði Bobby mjög léttilega og var framúrskarandi í Tveimur góðum. Vigdís Gunnarsdóttir kom skemmtilega á óvart í því lagi og stöllur hennar, Kristjana Skúladóttir og Birna Hafstein, gáfu ekkert eftir sem kórstúlkurnar. Það er ástæða til að hrósa Soffíu Karlsdóttur sérstaklega fyrir að skapa áberandi karakter úr litlu hlutverki. Útsetningarnar og hljóðfæraslátturinn voru líka til fyrirmyndar - dimmur undirtónn tónlistarinnar fékk að njóta sín í hægu tempói í bland við yfirborðsgleði hraðari hrynjandi. Þýðing Veturliða Guðnasonar á söngtextum jafnt sem samræðum er bæði smellin og þjál og greinilega vandað til verka. Það er leitun að söngleikjauppfærslu hér á landi sem hefur náð eins góðum árangri í heild í jafn viðamikilli sýningu og hér um ræðir. Hér er áherslan lögð á að boðskapur verksins skili sér í vönduðum leik og í túlkun söngtextanna. Ofan á þetta bætist að söngur, hljóðfæraleikur og allt það sem fyrir augu ber á sviðinu í þessari metnaðarfullu sýningu er í fremstu röð þess sem sést hefur í söngleikjasýningum hér á landi.
Sveinn Haraldsson

2/2 Fyrri síða...

 
     

Til baka...