Endurkoma Eddu Þórarinsdóttur
Edda Þórarinsdóttir hefur ekki sést lengi á leiksviðinu og því var það sérstök ánægja að fylgjast með hennar fágaða leik í hlutverki hinnar nett siðprúðu en þó spilltu Fraulein Schneider. Hafi Fraulein Schneider verið til, þá leit hún einmitt svona út. Elskhugann ávaxtasalann höfum við heldur ekki séð svo árum skiptir hér, en það var Borgar Garðarsson sem fór með það hlutverk og var hann bæði trúverðugur og krúttlegur í söng sínum. Unga nasistann lék Jóhannes Haukur Jóhannesson en hann hefur mikla og sterka nærveru. Það fór ekki á milli mála að hljómsveitin var líka í aðalhlutverki enda einstakir listamenn á ferð. Áhorfendur kunnu svo sannarlega vel að meta þeirra hlut eins og fram kom í sýningarlok.

Sjá ekki, heyra ekki, skilja ekki
Kolbrúnu Halldórsdóttur leikstjóra hefur hér tekist vel upp við að vefa saman þeim þráðum sem mynda heild í uppfærslu sem þessari, enginn dauður punktur og ærslafull leikgleði einkenna sýninguna í heild sinni. Nú á undanförnum árum hefur það verið gegnumgangandi tíska ungs fólks að fylgjast lítið sem ekkert með fréttum, gefa skít í pólitík og látast almennt vera vitlausara en það er. Að troða fingrum upp í eyrun og gefa skít í allt nema momentið má segja að hafa líka verið ríkjandi hegðun meðal þeirra sem sveifluðu sér upp í hina geggjuðu hringekju skemmtanalífsins í henni Berlínarborg við upphaf fjórða áratugarins. Kannski er það einmitt þess vegna sem þessi sýning á þó nokkuð erindi upp á leiksvið enn þann dag í dag. Góð skemmtun góðra listamanna.

Elísabet Brekkan

3/3 Fyrri síða...

 

 
     

Til baka...