Gæran Sally
Hlutskipti hennar er engan veginn annað en hinna stúlknanna á klúbbnum, þó henni finnist hún hafa mikið primadonnuhlutverk, þá þarf hún engu að síður að sinna sérlegum þörfum viðskiptavinanna þannig að það má segja að allir séu með öllum en bara ekki allir sem græða. Sally er rekin af klúbbnum og flytur heim til Cliff Bradshaw sem er nú kannski fremur hneigður til pilta en kvenna en þau elskast engu að síður á sinn hátt. Meðal þeirra sem venja komur sínar í hús Fraulein Schneider, sem á yfirborðinu virkar mjög strikt og siðavönd, er ávaxtakaupmaður sem gjarnan laumar að henni nýjum og ferskum suðrænum ávöxtum.

Ferskri ávextir töldust til gersema
Á þeim tíma sem hér um ræðir telst slíkt sælgæti til algerra gersema. Svo fer að gamli ávaxtakaupmaðurinn ratar í ból fraukunar og þau trúlofa sig með tilheyrandi veislu þar sem allir úr klúbbnum og allir úr götunni koma auk Erns Ludwig, en í þeirri senu gera menn sér grein fyrir því að hér er nasisti á ferð og ávaxtasalinn gyðingur. Eftir þetta eru breytingar örar. Augu Cliffs opnast betur og betur fyrir því sem er í raun að gerast í pólitikinni, Sallý heldur fyrir eyrun og neitar að horfast í augu við þann raunveruleika sem við blasir. Cliff vill fara með hana til Ameríku en hún verður áfram og hinn óviðjafnanlegi Emmsé kabarettkynnir hvíslar og æpir inn undir hennar skinn og áhorfenda að lífið sé þrátt fyrir allt kabarett. Í lokin er hann kominn í gerfi SS-foringja og hinn ungi landamæravörður sem birtist í annað sinn er nú aðeins þýsk strengjabrúða sem stjórnað er af þessum foringja og þegar tjaldið fellur umbreytist SS-foringinn í fanga útrýmingabúðanna, svona eins og við þekkjum þá af myndum í sínum fangafötum. Milli atriða í hinni eiginlegu sögu er svo sungið og dansað af hjartans list bæði dægurdansar tímans og eins grínatriði á grænum leðurstuttbuxum jóðlaranna með gular fléttur út í loftið.

Felix fínn rithöfundur og Þórunn...
Felix Bergsson fer með hlutverk rithöfundarins velklædda sem um margt svipaði til Arthurs Miller. Fínstemmd og trúverðug nálgun. Mjög smart gerfi. Þórunn Lárusdóttir fór með hlutverk Sally Bowles. Hún söng frábærlega og með leik sínum kom hún hinum sorglega undirtón í skugga kæruleysisins vel til skila, en það var með öllu óskiljanlegt hvers vegna hún þurfti að vera svona skökk og skæld þessi glæsilega stúlka. Auðvitað voru örlög hennar hræðileg og allt það, en það hefði bara gert sig betur á sviðinu hefði hún haft aðeins meiri reisn því nú er hún vel danshæf kona. Það er líklega leikstjórnaratriði að láta hana skakklappast í fylleríssenunum eins og unglingur sem þarf á bakæfingum að halda. Annars voru öll hópatriði þar sem Þórunn í hlutverki Sallýar dansaði með hinum gleðimeyjunum mjög vel útfærð , en samt eitthvað pirrandi við búningana. Þó þær væru á undirfötum með sokkaböndin dinglandi þá voru þær einhvern veginn ekki sexí og heldur ekki sorglegar.

Vantaði mjúkar línur í búningana
Það var eins og það hefði vantað nokkrar mjúkar línur í búningahönnunina. Magnús Jónsson fór með hlutverk kabarettkynnisins Emmsé og var hreint alveg frábær í öllum þeim gerfum sem hann birtist í. Hann naut þess auðvitað að atriðin og persónugerfin sem hann stökk inn í voru margbreytileg. Á klúbbnum dönsuðu Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Soffía Karlsdóttir , Birna Hafstein, Vigdís unnarsdóttir og Kristjana Skúladóttir og tveir piltdansarar sem auk þess brugðu sér í ýmis önnur gerfi en það voru þeir Guðjón Davíð Karlssson og Orri Huginn Ágústsson sem sprikluðu og létu öllum illum látum auk þess að dansa vel í hópi þessara flottu danskvenna. Síðar munu þær Marta Nordal og Agnes Kristjónsdóttir fara með tvö hlutverk dansmeyjanna.

2/3 Næsta síða

 

 
     

Til baka...