Sumar á eikarbát og margt fleira

Það er óhætt að segja að sumarið 2013 hafi verið viðburðarríkt hjá Felix. Skemmtanir, útvarpsþættir, sjónvarpsþættir, málþing, talsetningar teiknimynda, upptaka á hljómplötu og margt fleira.

Þátttaka í ævintýrinu sem fékk nafnið Áhöfnin á Húna stendur þar hæst af því sem komið er en þá sigldu landsþekktir tónlistarmenn í kringum landið á eikarbátnum Húna II og héldu tónleika í 16 höfnum til styrktar heimamönnum í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Felix og Margrét Blöndal fylgdu ferðinni eftir og gerðu eða aðstoðuðu við gerð sjónvarps og útvarpsefni um hljómsveitina sem birtist landsmönnum í júlí. Alls urðu sjónvarpsþættir 9, þar af 3 í beinni útsendingu og undir stjórn þeirra Margrétar og Felix. Þau unnu í náinni samvinnu við rokkstjóra verkefnisins, Jón Þór Þorleifsson, frá maí og fram til loka verkefnisins. Í kjölfarið verða svo gerðir 4 sjónvarpsþættir sem verða á dagskrá í vetur. Samstarfsaðilar RÚV að dagskrárgerðinni var framleiðslufyrirtækið Stórveldið og báru þeir Janus Bragi Jakobsson og Þór Freysson hitann og þungan af því. Verkefnið sló í gegn, þættirnir fengu frábært áhorf og þjóðin fylgdist spennt með. Alls söfnuðust 24 milljónir fyrir Björgunarsveitirnar og 660 bakverðir bættust í hópinn hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

Næstu verkefni Felix liggja fyrir, skemmtun á Neistaflugi og útvarpsþáttur um Verslunarmannahelgina, vinna við Stundina okkar fyrir veturinn, þátttaka í Menningarnótt í Landsbankanum og undirbúningur fyrir ýmis spennandi verkefni sem eru á teikniborðinu. Fleiri fréttir síðar.

Magga og Felix 6