Felix Bergsson hefur hafið vinnu við næstu plötu og er áætlað að hún komi út á næsta ári. Að þessu sinni er róið á önnur mið en á Þögulli nóttinni sem kom á síðasta ári, lögin poppaðri og textarnir eftir Felix sjálfan. Meðal höfunda sem vinna að þessari nýju eru Jón Ólafsson, Karl Olgeirsson, Eberg, Berndsen og Dr. Gunni. Felix semur íslenska texta með aðstoð yfirsnikkarans Braga Valdimars Skúlasonar. Jón Ólafsson stjórnar upptökum.
Fyrsta lagið af nýju plötunni er nú komið í spilun á Rás 2 og verður innan tíðar á www.tonlist.is Lagið heitir Eydís og er eftir Karl Olgeirsson. Lagið sjálft er óður til níunda áratugarins. Hljómagangur og uppbygging er ekki ósvipað því besta í poppinu frá þeim tíma. Textinn er með brosi út í annað. Er sögumaður að syngja ástaróð til Eydísar? Eða er hann bara svona linmæltur? Við látum hlustendur um að velta því fyrir sér.