Þórunn Lárusdóttir
Saylly Bowles

Þórunn Lárusdóttir útskrifaðist frá The Webber Douglas Academy of Dramatic Art í London vorið ´98. Hún starfaði í Bretlandi í eitt ár eftir útskrift eða þar til henni bauðst að taka að sér hlutverk Auðar í litlu hryllingsbúðinni í Borgarleikhúsinu. Hún lék m.a. Guðrúnu Ósvífursdóttur í verkinu Dóttir skáldsins í tjarnarbíói, einleikinn ferðir Guðríðar í skemmtihúsinu, en hún fór í leikferð til Bandaríkjanna með það verk og svo hefur hún leikið fjölmörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu, þar sem hún hefur verið fastráðin undanfarin ár. Meðal helstu hlutverka þar má nefna Linu Lamont í Syngjandi í rigningunni, Dollí í Önnu Karenínu, Súsí sýningarstjóra í Allir á svið, Michelle í veislunni, Hermu og fleiri hlutverk í Þetta er allt að koma, Marlene Dietrich og heilaga Teresu í Edith Piaf, Halldóru Þorleifsdóttur í Öxin og jörðin og Ýmsar nornir og prinsessur í barnaleikritinu Klaufar og kóngsdætur.

Þórunn Lárusdóttir er uppalin í Mosfellsbæ. Hún er dóttir Lárusar heitins, Sveinssonar trompetleikara og Sigríðar Þorvaldsdóttur leikkonu. Hún á tvær systur, Ingibjörgu, flugfreyju og Hjördísi Elínu (Dísellu) óperusöngkonu. Hún gekk í Varmárskóla sem barn, stúderaði trompetleik hjá föður sínum og spilaði með skólahljómsveit bæjarins í mörg ár. Þaðan lá leiðin alla leið upp í Gagnfræðiskóla Mosfellsbæjar með stuttri viðkomu í Grikklandi, nánar tiltekið Thessaloniki þar sem fjölskyldan dvaldi eitt ár. Eftir Gaggó fór að bera talsvert á flökkueðli Þórunnar og hún tók sér vetursetu í Flórída. Þegar nóg var komið af sól og sumri lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð en útskriftin þaðan átti sér stað vorið ´92. Næstu ár fékk útþráin að njóta sín, búseta á Ítalíu og í þýskalandi m.a. En ´95 kom að því að stúlkukindin fann langtímadvalarstað, sem var í London. Þar bjó hún meira og minna þar til 2001 þegar Íslandsþráin náði hámarki.

Staðan í dag er sú að nú æfir hún draumahlutverkið, Sally Bowles í Kabarett, með fádæma frábæru fólki á fádæma frábærum stað! Tilhlökkunin er mikil, undirbúningsvinnan hefur verið mjög skemmtileg, þó hefur hún tekið á, þar sem um er að ræða dramatískar aðstæður þegar verkið á sér stað sem og í verkinu sjálfu, sem verður frumsýnt þann 4. ágúst í íslensku óperunni.

 

 
     

Til baka...