Samúel Jón Samúelsson
Básúnuleikari

Samúel lauk kennaraprófi (1999) og burtfararprófi í básúnuleik frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2000.

Hann hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum og verið afkastamikill útsetjari í margvíslegri tónlist. Fyrsta soloplatan hans, Legoland (2000), hafði að geyma frumsamda tónlist sem hann útsetti fyrir 17 manna hljómsveit. Hljómsveit sú kom fram á Jazzhátíð Reykjavíkur árið 2000 undir stjórn Samúels.
Samúel hefur verið meðlimur í hljómsveitinni Jagúar frá 1998. Samúel er söngvari og básúnuleikari Jagúar og jafnframt einn helsti útsetjari og lagasmiður hljómsveitarinnar. Hljómsveitin Jagúar hefur gefið út 3 hljómplötur, Jagúar (1999), “Get the funk out” (2001, Íslensku Tónlistarverðlaunin - Hljómplata ársins), og “Hello Somebody!” (2004, Íslensku Tónlistarverðlaunin – Flytjandi ársins) með frumsamdri tónlist. Hljómsveitin hefur leikið víða erlendis við góðan orðstír s.s. á hinum virta tónleikastað “Jazzcafé” í London. Þá hefur hljómsveitin leikið í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Austurríki og Sviss.
Samúel hefur leikið á básúnu með fjölda listamanna s.s. Tómasi R. Einarssyni, Stórsveit Reykjavíkur, Sigur rós, Sigtryggi Baldurssyni, Sálinni Hans Jóns Míns, Ný Danskri, Trabant, Bang Gang, Funerals, Landi og Sonum, Geirfuglum, Stuðmönnum, Hjálmum ofl.
Samúel hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2000 í flokknum Besti blástursleikarinn.
Þá hefur Samúel unnið sem útsetjari fyrir ýmsa listamenn s.s. Eddu Heiðrúnu Bachman - tónlist e. Atla H. Sveinsson, Stórsveit Reykjavíkur, Sálina Hans Jóns Míns, Marc Almond, Jóhann Jóhannsson, Pál Óskar, Jón Ólafsson, Maus, Land og Syni, Borgardætur, SSSól, Quarashi ofl.
Hann hefur jafnframt starfað sem aðstoðarútsetjari á tónlist í fjölmörgum íslenskum kvikmyndum s.s. Íslenski Draumurinn, Maður eins og ég o.fl.
Samúel stjórnaði 14 manna hljómsveit á tvennum tónleikum Listahátíðar í Reykjavík (maí 2004) þar sem flutt var tónlist Tómasar R. Einarsonar í útsetningum Samúels.
Tónleikarnir voru hljóðritaðir og gefnir út á plötunni, Dansaðu Fíflið þitt Dansaðu! (2004, Íslensku Tónlistarverðlaunin – Jazzplata ársins, Jazzflytjandi ársins og Jazzverk ársins)
Samúel útsetti fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitina Ný Dönsk fyrir tónleika Sveitanna í Háskólabíói í Nóvember 2004.
Samúel hefur auk þess stjórnað Stórsveit Reykjavíkur við ýmis tækifæri (ma. í IDOL-stjörnuleit) og vinnur að frumsaminni svítu fyrir Stórsveitina sem frumflutt verður í febrúar 2006.

 
     

Til baka...