Lífið er...
05.07.2005
Við erum byrjuð aftur að æfa og nú erum við komin á svið í óperunni. Snorri og hans fólk búið að leggja dag við nótt til að hafa sviðsmyndina tilbúna. Það var skrýtin tilfinning að ganga sviðið. Allt svolítið öðruvísi en við bjuggumst við. Lítið pláss hér, gat í gólfinu þar. Margt að hugsa um.. ég var kvíðinn á sunnudagskvöldið en kvíðinn hvarf þegar ég hitti hópinn og allt fór á fullt. Það er alveg sérstök orka í þessu fólki.. maður sá ekki betur en hópurinn kæmi endurnærður til vinnu eftir fríið.

Byrjuðum seinna tímabilið á spjalli við Einar Laxness sem er sérfræðingur í Weimar tímabilinu í þýskalandi. Þetta var frábær stund og margt sem maður fræddist um. Einar gat sagt okkur allt um stjórnmálin, ríkisstjórnir sem komu og fóru, kreppurnar sem þýska þjóðin gekk í gegnum, blómatíma frá 1924-1929, atvinnuleysið, miskunnarleysi sigurvegaranna úr fyrri heimstyrjöldinni og menninguna í berlín í kringum 1930. við spurðum mikið og fengum svör. Það er ótrúlegt að velta fyrir sér uppgangi nasismans, baráttunni á milli kommúnista, krata og nasista og því hvernig þjóðin reyndi að lifa allar þessar hremmingar af. við erum mikið að velta fyrir okkur ástandinu í berlín frá 1924 til 1933, þar sem allt virtist til sölu og frjálsræðið var algert. Ungt fólk gaf skít í kreddur samfélagsins og prófaði sig áfram á sviðum þar sem boð og bönn höfðu verið allsráðandi. Kynlíf og dóp og djass.. Partýið varð villt, stundum of villt og í andvaraleysi þess komust nasistarnir til valda. Cliff lýsir berlínarbúum í verkinu sem “...unglingum í heimapartýi sem verður villtara og villtara og allir vita að foreldrarnir eru að koma heim.” Þannig hefur það greinilega verið.

Renndum öllu verkinu á sviðinu um kvöldið. Það var skrýtið en skemmtilegt. Við eigum erfiðar vikur fyrir höndum en það er alltaf gaman að því að taka erfiðri áskorun og hafa sigur... framundan eru æfingar, viðtöl við fjölmiðla, uppákomur, miðasala og mikið fjör.
Felix.

 
     

Til baka...