Ný þýðing á Kabarett
Söngleikurinn Kabarett var fyrst settur upp á Íslandi í Þjóðleikhúsinu fyrir rúmum þrjátíu árum. Þýðinguna gerði Óskar Ingimarsson og eins og hans var von og vísa var hún bæði falleg og vönduð. Leikgerðin sem nú er sýnd er hins vegar nokkuð breytt og það sem meira er: á undanförnum þrjátíu árum hefur málfar og málsmekkur almennings tekið ákaflega miklum breytingum. Sagan gerist að vísu fyrir rúmum sjötíu árum en dramatísk áhrif verksins byggjast á því að hún skili sér beina leið til samtímans hverju sinni.
Reyndar er hrærigrautur tungumálanna í Kabarett mjög athyglisverður. Ungur Bandaríkjamaður kynnist enskri stúlku í Berlín og tekur Þjóðverja í enskutíma. Gerður er munur á amerískri og breskri ensku og þýski nemandinn gerir villur og talar stundum bjagað mál. Aðrar persónur í verkinu ættu strangt tekið að tala þýsku og gera það líka í byrjun. Kynnirinn í Kit Kat Klúbbnum fullkomnar blönduna með því að tala ensku og þýsku á víxl og sletta dálítilli frönsku. Allt þarf þetta svo að birtast í íslenskum búningi.
|