Senurnar kvikna...
19.06.2005

Það er komið sumarfrí í æfingum okkar á kabarett. 4 vikur eru búnar, nú fáum við tvær í frí og svo kýlum við verkið upp frá 4. júlí og frumsýnum 4. ágúst. Ég skrifa þetta að kvöldi 19. júní, með teið mitt í könnu, eftir helgi þar sem ég hef loksins náð að slaka á eftir brjálaðar vikur. Það hefur gengið vel. Raunar frábærlega vel en maður veit samt aldrei hvernig hlutirnir standa á þessum tímapunkti. Tilfinningin er samt góð, verkið er frábært, hópurinn að sama skapi ótrúlega einbeittur og áhugasamur.

Uppsetning á leikverki er alltaf hreint ótrúlegt ferli. Þessi hugmynd sem kviknar, fær vængi í meðförum fjölda listamanna og verður svo að fiðrildi (eða feitri flugu...) Ég hef trúað á verkefnið frá fyrsta degi. Ákvörðun um uppsetninguna var eiginlega endanlega tekin þegar ég borgaði fyrir sýningarréttinn. Það var í ágúst í fyrra. 180 þúsund kall eru heilmiklir peningar fyrir leikhóps sem hefur aldrei leyft sér neitt. Teningunum var kastað. Við kolla, jói og kalli olgeirs höfðum lengi talað um kabarett sem mögulegt verkefni fyrir leikhópinn okkar. Verkið höfðaði til okkar, held ég vegna þess að við höfðum ákveðna hugmynd um hvernig ætti að gera það, auk þess sem það rímar mjög vel við manífestó leikhópsins. Við kolla erum bæði mjög pólitísk. Kabarett er mjög pólitískt verk.

Ég hef lengi þekkt til verka christopher isherwood án þess að hafa lesið þau mikið. Aðrir höfundar eru alltaf að vitna í hann, t.d. gore vidal en ég las ævisögu hans fyrir nokkrum árum. isherwood er einn af þessum samkynhneigðu höfundum á 20. öld sem komu smám saman útúr skápnum í verkum sínum. Þegar ég sá kvikmyndina cabaret var ég viss um að hún gæti ekki hafa verið skrifuð af gagnkynhneigðum manni. Bob fosse var að vísu straight en það var isherwood ekki. Hann fór til berlínar til að vera hommi og hann skrifaði um berlín frá sjónarhóli manns sem lifði því lífi. Hann tók inn pólitíkina og mannlífið, fylgdist með og skráði, “tók myndir” og “framkallaði” á sinn hátt. Berlínarsögurnar og sögurnar um herra norris eru algjör snilld. Þær eru fullar af lífsþorsta og húmor, sorg, erfiðleikum, svikum, ást, gleði, drama.. mæli með þeim við alla sem unna góðum skáldskap.

Við hófum æfingar í tjarnarbíói þann 19. maí. Hópurinn mættur, allir í stuði. Hrabba mætt og byrjuð að gera heimildarmynd, allt soldið óraunverulegt. Kolla lagði handritin á borðið, við byrjuðum að lesa. Ég fékk gæsahúð þegar ég leit yfir liðið – þórunn, birna, maggi, jói, gói, kristjana, orri, vigga, edda, boggi og svo framvegis.. úff. Hópurinn orðinn til eftir uppstokkun og breytingar á löngu tímabili.. Ég er búinn að fá gæsahúð oft á þessum fyrstu fjórum vikum. Það hefur verið mikil pressa á öllum. Margrét sara danshöfundur hefur stigið inn í verkefnið eins og herforingi og þrælar liðinu út. kalli ljúfur eins og venjulega leiðir alla í gegnum tónlistina, hvort sem þeir eru öruggir eða ekki. ég er mest undrandi á þeim ótrúlega talent sem er tilbúinn að vera með, taka hlutverk sem eru varla skrifuð inn í verkið! Það fyllir mig stolti að sjá svo marga mæta til vinnu á vegum litla leikhópsins okkar sem varð til við eldhúsborð í forest gate i london. Daginn sem við ákváðum að kýla á að setja upp hinn fullkomna jafningja.. fólk mætir til vinnu og þrælar. Við ætlum að gera frábæra sýningu. Það virðast allir vilja vinna eins og við kolla unnum í þá daga – gefa allt í verkið, allt í sköpunina, allt fyrir leikhúsið sem þarf endurnýjun og líf – alltaf! Kolla er á fullu, lifandi og kát og alvarleg og pólitísk og skemmtileg og gefandi og þiggjandi... ég verð alltaf svo glaður að ná henni inní leikhúsið. Þar á hennar mikli hæfileiki heima.

Mér líður stundum þannig að ég hafi ekki getað einbeitt mér nógu mikið að hlutverki mínu í verkinu vegna anna minna við að koma framkvæmdahliðinni áfram. Gæti ekki ímyndað mér hvernig þetta væri ef ég hefði ekki hann ingvar snilling sverrisson mér við hlið! Ég hef engar áhyggjur af því að ég muni ekki ná utan um að leika cliff bradshaw. Hlutverk hans er hlutverk þess sem hlustar, horfir, skráir og miðlar. En það er miklu dýpra en það, sérstaklega þegar líður á verkið og hann verður algjör miðpunktur í atburðarrás sem hann gat alls ekki séð fyrir. Verður persóna í eigin skáldsögu. Cliff í okkar sýningu er hommi. Þess vegna verður sambandið við sally enn dramantískara og sorglegra. Þau geta ekki átt hvort annað – aldrei, hvað sem okkur langar mikið til þess. Kannski er loksins komið að því.. syngur sally og emmsé hristir hausinn. Ekki sjéns...

Renndum öllu verkinu þriðjudaginn 14. júní. Það var gott, mjög ófullkomið en gott. Hittum hljómsveitina í fyrsta sinn. Allir mjög jákvæðir. Ég naut þess að leika á móti þórunni. Hún er á leiðinni að gera sally sem tekið verður eftir. Við náðum djúpri og óvæntri tengingu í lokasenu sem varla er búið að vinna. Tilfinningin var góð – kannski erum við á réttri leið? Hittumst flest í partýi hjá mér þann 16. júní. Hópurinn svo samstilltur og kátur. Förum spennt í fríið og byrjum aftur í leikmynd í íslensku óperunni 4. júlí.

Næstu tvær vikur fara í framkvæmdina. Leikskrá, geisladiskur, samningar, ljósmyndir, auglýsingar, leikmynd, heimasíða, fréttatilkynningar, miðasala.... það er ótrúlegt verkefni að koma upp leiksýningu. Þetta verkefni er stærra en nokkru sinni fyrr.. og skemmtilegra!
Felix

 
     

Til baka...