Gagnrýni – Þorgerður Sigurðardóttir, Víðsjá Rás 1

“Með vandasamt hlutverk kabarettkynnisins fer Magnús Jónsson. Hlutverk kabarettkynnisins er mjög tvírætt, bæði þegar kemur að kynhneigð hans og stöðu hans gagnvart klúbbnum og umhverfinu en skírskotun hans sem stjórnanda, bæði fyrir framan tjöldin og bak við þau er undirstrikuð svo um munar í þessari uppfærslu og fær þannig til dæmis mun víðari merkingu en í myndinni, hlutverkið verður mjög hlaðið og táknrænt og þar af leiðandi kannski bitastæðara en ella en jafnframt vandasamara. Magnús vinnur mjög vel úr þessu hlutverki, hann er kynferðislega tvíræður á fremur ruddalegan hátt, bæði ógnandi og blíður einhvern veginn. Texti kabarettkynnisins felst fyrst og fremst í kynningum og söng en mestu miðlar hann í þessu tilviki með hárfínu látbragði sem er unnið mjög nákvæmlega og greinilega afar markviss hugsun að baki túlkuninni sem er tvímælalaust sú eftirminnilegasta í þessari sýningu þegar upp er staðið.”

“Edda Þórarinsdóttir og Borgar Garðarsson fara með hlutverk fraulein Schneider og Herr Schulz, leigusalans og leigjandans sem fella hugi saman og trúlofa sig. Þetta samband myndar andstæðu við úrkynjuna og hnignunina í umhverfinu og er það til dæmis undirstrikað með lýsingu sem er iðulega mun hlýlegri en ella þegar þau skötuhjú eiga í hlut. Leikur Eddu og Borgars var einnig lágstemmdur og innilegur í samanburði sem kom vel út. ...það var mikill sjarmi yfir þessu sambandi og þau komu vel til skila brothættu ástandinu í þjóðfélaginu sem kemur fram í sambandi þeirra þegar á líður.”

“Þeir Guðjón Davíð Karlsson og Orri Huginn Ágústsson komast vel frá hinum ýmsi smærri hlutverkum í sýningunni, ekki síst Orri sem fer með mörg hlutverk sem hann nær afar vel að gera að sínum.”

“Katla Margrét Þorgeirsdóttir var mjög fyndin í hlutverki gleðikonunnar fraulein Kost og sýndi á sér nýja hlið, en hún er ágætis söngkona.”

“Margrét Sara Guðjónsdóttir er höfundur dansa sem eru kæruleysislega ögrandi og henta þannig ágætlega þeirri sundurleitu skemmtun sem krafist er af skemmtikröftum á klúbbum eins og Kit Kat klúbbnum þar sem viðkomandi þarf að vera slarkfær í dansi, söng, gríni og djarfheitum en ekki meira en svo.”

“Söngleikjatónlist gerist ekki mikið skemmtilegri að mínu mati en tónlistin í Kabarett. Hljómsveit undir stjórn Karls O. Olgeirssonar var í fínu formi og undantekningalítið var söngurinn fínn og í sumum tilvikum mjög góður og þá ekki síst hjá Þórunni Lárusdóttur...”

 
     

Til baka...