|
|
Um Leikhópinn Á senunni
Leikhópurinn „Á senunni“ var stofnaður af þeim Kolbrúnu Halldórsdóttur og Felix Bergssyni árið 1998. „Hinn fullkomni jafningi“ var fyrsta verkefni hópsins. Að þeirri vinnu komu fjölmargir listamenn. Leikhópurinn hefur notið stuðnings ýmissa opinberra aðila og fyrirtækja. Meðal stuðningsaðila úr opinbera geiranum eru Menntamálaráðuneytið, Leiklistarráð, Reykjavíkurborg, Fjárlaganefnd Alþingis, Félagsmálaráðuneyti og Heilbrigðisráðuneyti. Meðal fyrirtækja sem veitt hafa hópnum brautargengi eru Mál og menning, Vátryggingarfélag Íslands, Flugleiðir, Landssíminn, Jómfrúin og Gistiheimilið „A Room With a View“. Markmið hópsins voru frá upphafi að vinna að nýrri íslenskri leiklist, leikhúsi sem höfðaði til vitsmuna áhorfenda og væri tæki til að örva þjóðfélagslega umræðu. Stefnan var strax sett á alþjóðlega skírskotun. Leikhópurinn er meðal aðildarhópa að „Sjálfstæðu leikhúsunum“, SL, og einnig meðal evrópskra leikhúsmanna sem standa að IETM, Informal European Theatre Meeting.
Í kjölfarið á þeim frábæru viðtökum sem „Hinn fullkomni jafningi“ fékk fór leikhópurinn í samstarf við leikhópa í Evrópu og saman fengu hóparnir styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandsins, Kaleidescope (nú Culture 2000). Samstarfshóparnir eru Leikhópurinn Gríma í Færeyjum, Haalogaland Teater í Tromsö í Noregi og Drill Hall leikhúsið í London. Leiksýningin hefur nú verið sett upp í öllum þessum löndum og hyggja hóparnir á enn frekara samstarf í framtíðinni. Raunar er samvinna við Drill Hall nú þegar hafin. Þá var leikhópnum boðið að sýna verkið á leiklistarhátíðinni Konkret Teaterfestival í Malmö Svíþjóð á vordögum 2002. Þar var verkið einn af 4 gestaleikjum og vakti verulega athygli. Enn virðist Hinn fullkomni jafningi eiga eitthvað inni því enn berast fyrirspurnir um verkið hvaðanæva úr heiminum. Líkur eru á að verkið verði leikið í Glasgow í nóvember 2003.
Næsta frumsýning leikhópsins var ljóða og leikdagskráin Ég býð þér dús mín elskulega þjóð en þetta er leikdagskrá byggð á ljóðum Halldórs Laxness. Frumsýnt var í desember 2001 á Blönduósi, enda verkið farandsýning. Nú þegar hefur Ég býð þér dús... verið sýnt 19 sinnum út um allt land.
Næsta frumsýning leikhópsins „Á senunni“ var Kvetch eftir Steven Berkoff í samvinnu við Vesturport. Kvetch vefurinn.... Frumsýnt var í Vesturporti í október 2002. Kvetch sló í gegn og flutti fljótlega á Nýja svið Borgarleikhússins. Sýningar hófust aftur haustið 2003 og komu nýir leikarar inn í október 2003. Kvetch fékk 4 Grímur 2003, íslensku leiklistarverðlaunin fyrir:
Leiksýning ársins: Kvetch
Leikstjóri ársins: Stefán Jónsson
Leikkona ársins í aðalhlutverki: Edda Heiðrún Backman
Leikari ársins í aukahlutverki: Ólafur Darri Ólafsson
Að auki hlaut sýningin útnefningar fyrir
Sviðsmynd ársins (Snorri Freyr)
Lýsing ársins (Sigurður Kaiser)
Tónlist ársins (Jón Hallur Stefánsson)
Einnig var Kvetch útnefnt til menningarverðlauna DV í leiklist!
Leikhópurinn hefur fjölmörg önnur verkefni á prjónunum og munu þau líta dagsins ljós í nánustu framtíð.
Leikhópurinn Á senunni er kominn til að vera.
|
|
|
|