Senda tölvupóst!
  Leikhópurinn Á senunni kynnir:
Ég býð þér dús mín elskulega þjóð...
Leikdagskrá byggð á
ljóðlist Halldórs Laxness


Leikhópurinn Á senunni frumsýndi þann 13. desember 2002 leikdagskrána Ég býð þér dús mín elskulega þjóð, en það er dagskrá byggð á ljóðum Nóbelskáldsins Halldórs Kiljan Laxness. Frumsýningin fór fram á kaffhúsinu Við árbakkann á Blönduósi og hlaut frábærar viðtökur frumsýningargesta. Tilefni dagskrárinnar er að Halldór hefði orðið 100 ára í apríl árið 2002.

Í dagskránni er komið víða við í verkum skáldsins. Fyrri hluti hennar er að mestu tileinkaður Kvæðakverinu og þá eru flutt ljóð eins og Únglingurinn í skóginum, Rhodymenia Palmata, SS Montclare og Barnagæla frá Nýa Íslandi. Í síðari hlutanum er áherslan hinsvegar á skáldsögunum og kveðskapur helstu höfuðpersóna í stærri skáldsögum Halldórs er fluttur. Þannig koma til dæmis ljóðskáldin Ólafur Kárason og Bjartur í Sumarhúsum við sögu. Þá eru einnig í dagskránni sungin nokkur af fallegustu lögunum við ljóð Halldórs Laxness, t.d. Hvert örstutt spor, Hjá lygnri móðu og Vögguljóð á Hörpu, auk þess sem rifjuð eru upp atvik úr ævi skáldsins. Leikdagskráin Ég býð þér dús mín elskulega þjóð er létt og skemmtileg og hana má flytja hvar sem er. Hún tekur um 70 mínútur í flutningi með hléi en að sjálfsögðu er hægt að stytta hana að vild og hagræða fyrir hvert tilefni.

Leikhópurinn Á senunni var stofnaður af Felix Bergssyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur árið 1998. Hópurinn hefur þegar vakið athygli fyrir nýstárlega og frumlega nálgun á sviði leiklistar. Fyrsta verk hópsins, Hinn fullkomni jafningi, hlaut mikið lof og frábæra aðsókn á Íslandi. Sýningin hefur síðan verið leikin víða um heim.

Listamennirnir sem koma að Laxness og ljóðunum eru allir landskunnir. Þeir eru leikararnir Jakob Þór Einarsson og Felix Bergsson, og tónlistarmaðurinn Davíð Þór Jónsson.

Jakob Þór Einarsson er kunnastur fyrir leik sinn í kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur og Óðal feðranna. Jakob hefur einnig leikið fjölmörg hlutverk á leiksviði, flest hjá Leikfélagi Reykjavíkur, bæði í Iðnó og eins í Borgarleikhúsi. Síðast mátti sjá hann í hlutverki Péturs Gauts hjá Leikfélagi Akureyrar.

Felix Bergsson hefur einnig víða komið við í leiklistinni. Hann hefur leikið burðarhlutverk hjá Þjóðleikhúsi, Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar, starfað í sjónvarpi, leikið í kvikmyndum og hefur á seinni árum snúið sér að skriftum. Fyrsta leikrit hans, Hinn fullkomni jafningi, hefur hlotið lof, jafnt innan lands sem utan. Á árinu frumsýndi Verzlunarskólinn nýtt verk eftir Felix, söngleikinn Slappaðu af!

Davíð Þór Jónsson er af mörgum talin eitt mesta efni sem komið hefur fram í tónlistinni á undanförnum árum. Þessi ungi Akurnesingur hefur verið áberandi í tónlistarlífi höfuðborgarinnar og þrátt fyrir ungan aldur er hann orðinn eftirsóttur píanóleikari, jafnt hér heima sem erlendis. Síðast spilaði hann stóran þátt í endurkomu Mannakorna í tilefni af 25 ára afmæli sveitarinnar og hlaut einróma lof fyrir leik sinn. Fyrsta sólóplata Davíðs Þórs kom út nú í sumar.

Leik og söngskemmtunin Ég býð þér dús mín elskulega þjóð er mjög meðfærileg og því möguleiki að sýna hana hvar og hvenær sem er. Hún er tilvalin fyrir hópa af öllum stærðum og gerðum (50 – 250 manns). Um miðaverð er samið sérstaklega, en því er stillt í hóf.

Nánari upplýsingar:

Leikhópurinn Á senunni,

Vesturgötu 44, 101 Reykjavík
Sími 898 4333 (Laila)