|
|
"Hinn fullkomni jafningi"
Elskhugi og fullkomni jafningi!
Ég ætlaði þér að finna mig þannig fyrir tilstilli óræðra vísbendinga,
og þegar ég hitti þig, ætla ég að finna þig á sama hátt.
(Walt Whitman, 1860)
Hinn fullkomni jafningi
Hver sköpun er einstök, á sér engar hliðstæður. Ferlið er alltaf nýtt. Hver gata ógengin. Hvert orð ósagt áður. Hinn fullkomni jafningi hefur verið fóstraður og nærður af hjartans einlægni þeirra sem að verkinu hafa komið. Ótal steinum hefur verið velt við og ótal gullkorn fundist. Þeim hefur verið raðað saman og úr þeim ofin leiksýning, sem hefur þegar skipt sköpum í lífi okkar. Okkar von er sú að hún geti opnað dtyr og glugga, hleypt ljósi og fersku lofti inn í líf sem flestra.
(Kolbrún Halldórsdóttir, úr leikskrá.)
Leikhópurinn ,,Á senunni” frumsýndi Hinn fullkomna jafningja þann 3. janúar 1999 í Íslensku óperunni. Viðtökur voru framúrskarandi, dómar einkar jákvæðir og áhorfendur fóru strax að sýna áhuga. Sýningar urðu 18 á tveimur mánuðum. Sýningargestir urðu rúmlega 5000. Síðasta sýning á Íslandi var 6. mars 1999, fyrir troðfullu húsi. Strax komu fram óskir um að sýningin yrði tekin upp að nýju.
Í kjölfar sýningarinnar sannaðist enn hversu mikil þörf er að ræða málefni samkynhneigðra á Íslandi. Meðlimir leikhópsins skipulögðu sjálfir og tóku þátt í fjölmörgum fundum sem haldnir voru í kjölfar sýninga, m.a. með starfsfólki ÍTR, starfsmönnum landlæknisembættisins á heilbrigðissviði, kennurum og námsráðgjöfum Reykjavíkur og með prestum og meðlimum í safnaðarstjórnum. Þá fór Felix Bergsson líka í ýmsa skóla og félagsmiðstöðvar og lék stutta kafla úr leikritinu, auk þess sem hann sat fyrir svörum á eftir. Þessar umræður voru undantekningalaust ánægjulegar og árangursríkar. Í HÍ var stofnað félag samkynhneigðra stúdenta. Við það átti leikhópurinn farsælt samstarf og tók virkan þátt í þeirri vakningu sem þar átti sér stað.
Sýningin og málefnið fengu einnig mikla fjölmiðlaumfjöllun, bæði í sjónvarpi og útvarpi. Þannig komu Felix og Kolbrún fram í fjölmörgum útvarpsþáttum og sjónvarpið gerði heilan þátt þar sem lagt var út frá sýningunni og málefni samkynhneigðra skoðuð. Þá sýndu dagblöðin málefninu og sýningunni umtalsverðan áhuga.
Fljótlega eftir frumsýningu hér á Íslandi fór að bera á áhuga útlendinga á sýningunni. Hingað komu í boði leikhópsins þrír Bretar frá London, leikstjórinn Maggie Kinloch, Julie Parker leikhússtjóri Drill Hall leikhússins og Jules Cassidy formaður leikhússráðs Drill Hall. Útkoman var boð að koma og leika verkið í Drill Hall en það er virt ,,Off-West End” leikhús.
Í samvinnu við Drill Hall leikhúsið, Halogaland Teater í Tromsö og leikhópinn Grímu í Færeyjum, sótti leikhópurinn Á senunni um svokallaðan Kaleidescope styrk hjá menningaráætlun ESB. Við fengum styrkinn og í kjölfarið var verkið leikið í þessum þremur leikhúsum. Vel tókst til, sérstaklega í London, þar sem verkið hlaut frábærar viðtökur. Sýningin var sett upp að nýju í London og leikin alls 15 sinnum. Fjölmiðlaumfjöllun var veruleg. Nánar...
Í samstarfi við Reykjavíkurborg og Flugleiðir bauð leikhópurinn hópi breskra blaðamanna til Íslands til að sjá forsýningu á verkinu. Útkoman var feikimikil umfjöllun um Reykjavík, Ísland og leikhópinn Á senunni í breskum fjölmiðlum.
Enn er verið að bjóða Hinum fullkomna jafningja til útlanda. Á vordögum 2002 lékum við verkið í Malmö og þegar þetta er skrifað (árið 2002) eru líkur á að verkið farið á næsta ári til Glasgow.
Hinn fullkomni jafningi segir sögu fimm Reykvíkinga sem eiga það eitt sameiginlegt að vera hommar. Við fylgjumst með þeim í leitinni að lífshamingjunni. Sú leit fer til dæmis fram á netinu, í Öskjuhlíð, í útlöndum og síðast en ekki síst innra með þeim sjálfum. Verkið er gamansamt en með alvarlegum undirtóni og endirinn kemur á óvart....
Persónur verksins:
Ari Finnsson, kennari á fertugsaldri.
Albert Eskilsson, sölumaður tæplega þrítugur.
Steinþór Reykdal, rúmlega þrítugur lögfræðingur
Máni, fiðrildi, tvítugur
Ásgeir Ásgeirsson (Ásta frænka), á sjötugsaldri.
Nokkur orð frá höfundi
Það eru mörg árin síðan við Kolbrún Halldórsdóttir ákváðum að vinna saman að metnaðarfullu leikhúsverkefni og þegar Hinn fullkomni jafningi fór að mótast í huga mínum fundum við að ekki varð aftur snúið. Með Hinum fullkomna jafningja langar okkur til að leggja lóð á vogarskálarnar. Okkur finnst það forréttindi að fá tækifæri til að fjalla um málefni sem svo brýnt er að koma inn í umræðuna. Þessa umræðu viljum við vekja með leikhúsi sem snertir áhorfendur, leikhúsi sem kemur heilasellum af stað, leikhúsi sem fær hjartað til að slá örlítið hraðar. Fyrst og fremst langar okkur til að koma af stað umræðu um málefni samkynhneigðra úti í samfélaginu. Okkur langar til að segja sögur sem eru sprottnar úr okkar rammíslenska verluleika, sögur sem við öll ættum að þekkja.
Það eru margir sem ég ætti að þakka fyrir fórnfúst starf og stuðning en ég ætla að láta nægja hér að þakka Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem hefur fylgt mér í gegnum þykkt og þunnt, allt frá því að hugmyndin að Hinum fullkomna jafningja kviknaði.
Hinn fullkomni jafningi er skrifaður til að brjóta múra þagnar.
Höfundur: Felix Bergsson
Leikstjóri og dramatúrg: Kolbrún Halldórsdóttir
Leikari: Felix Bergsson
Stoðleikarar: Margrét Vilhjálmsdóttir, Stefán Jónsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Alan Suri, Elísabet Þorgeirsdóttir, Þórhallur Vilhjálmsson. Leikmynd: Magnús Sigurðarsson
Ljós: Jóhann Bjarni Pálmasona
Búningar: María Ólafsdóttir
Gervi: Ásta Hafþórsdóttir
Kvikmynd: Kristófer D. Pétursson
Myndvinnsla: Hreyfimyndasmiðja, Bragi Þór Hinriksson
Tónlist: Karl Olgeirsson
Hljóð: Páll S. Guðmundsson og Mark Eldred
Ljóðaþýðingar: Jón Ásgeir Sigurvinsson
Sýnigarstjórn: Geir Óttar Geirsson
Framkvæmdastjóri: Hrafnhildur Hafberg
Aðstoð við hreyfingar Mána: Bjartmar Þórðarson
Aðstoðarmaður leikstjóra: María Reyndal
Aðstoðarmaður við leykmynd: Unnar Unnarsson |
|
|
|